Erlent

Friðargæsluliðar sakaðir um nauðgun og morð

Samúel Karl Ólason skrifar
Friðargæsluliðar að störfum í Bangui.
Friðargæsluliðar að störfum í Bangui. Vísir/AFP
Mannréttindasamtökin Amnesty International saka friðargæsluliða í Mið-Afríkulýðveldinu um að hafa nauðgað tólf ára stúlku. Þeir eru einnig sakaðir um að hafa myrt 16 ára dreng og föður hans. Samtökin segjast búa yfir sönnunargögnum og að nauðsynlegt sé að rannsaka málið til hlítar.

Atvikin eru sögð hafa gerst 2. og 3. ágúst í hverfi múslima í borginni Bangui. Í tilkynningu frá samtökunum segir að rætt hafi verið við 15 vitni skömmu seinna. Einnig var rætt við stúlkuna og fjölskyldu hennar. Hjúkrunarfræðingur sem skoðaði hana fann vísbendingar um nauðgun.

Talsmaður friðargæsluverkefnisins í Mið-Afríkulýðveldinu segir að hermenn og lögreglumenn frá Rúanda og Kamerún hafi tekið þátt í aðgerðunum í hverfinu þann 2. ágúst. Þá segir hann að einn hermaður hafi látið lífið í átökum við íbúa og að níu hafi særst.

Þann 3. ágúst sneru hermennirnir aftur og segja vitni að þeir hafi skotið á íbúa hverfisins á götum hverfisins. Þeir Balla Hadji, 61, og Souleimane Hadji, 16, eru sagðir hafa orðið fyrir skotum fyrir utan heimili sitt. Fjölskylda þeirra segir að friðargæsluliðarnir hafi ekki reynt að hjálpa til við að flytja feðgana til aðhlynningar. Þess í stað hafi þeir skotið á dóttir Balla þegar hún reyndi að koma þeim til hjálpar.

Í samtali við Guardian segir Hamadoun Toure, talsmaður friðargæsluverkefnisins, að rannsókn sé hafin og að málið sé litið alvarlegum augum.

Friðargæsluliðar hafa verið í Mið-Afríkulýðveldinu frá því í fyrra, þar sem þeir reyna að stöðva átök á milli kristinna og múslima. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×