Erlent

Ættingjar þeirra sem saknað er í Kína krefjast upplýsinga

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Reiðir aðstandendur rífast við lögreglu í dag, sunnudag.
Reiðir aðstandendur rífast við lögreglu í dag, sunnudag. Vísir/EPA
95 manns, þar af 85 slökkviliðsmenn, hafa ekki enn fundist eftir sprengingarnar í norðaustur Tianjin í Kína. Fjórir dagar eru liðnir síðan sprengingarnar urðu í vöruskemmu sem innihélt hættuleg efni. Sprengingin var svo öflug að aðeins hefur verið unnt að bera kennsl á lítinn hluta þeirra sem létust.

Kínversk yfirvöld hafa látið lokað tugum vefsíðna fyrir að dreifa orðrómum. Ríkisrekni fjölmiðillinn Xinhua sagði að fimmtíu vefsíður hefðu verið ásakaðar um að efna til æsings meðal almennings með því að birta óstaðfestar upplýsingar um sprengingarnar. BBC greinir frá.

Þá hafa kínversk stjórnvöld lokað á hundruð manna á samfélagsmiðlum síðan á miðvikudag.

Tugir ættingja þeirra sem saknað er og íbúar á svæðinu hafa mótmælt fyrir utan hótel sem notað er undir opinberlega fréttafundi. Segjast þau ekki fá nægar upplýsingar frá ríkisstjórninni um hvaða efni eru á slysstaðnum.

Yfirvöld hafna fregnum af því að hafa fyrirskipað að allir innan við þrjá kílómetra af slysstað yrðu fluttir á brott. Í gær liðaðist skyndilega reykur upp frá vöruskemmunni sem vakti þann ótta meðal íbúa að önnur sprenging hefði orðið. Hins vegar virtist af myndum Xinhua, ríkisrekna fjölmiðilsins, sem kviknað hefði í bíl á svæðinu. CNN greindi frá brottflutningnum af svæðinu.

Að minnsta kosti hundrað og tólf létust í sprengingunum en aðeins hefur tekist að bera kennsl á 24 þeirra. Sérfræðingar notast nú við DNA próf til þess að bera kennsl á hina. Um 720 eru alvarlega slasaðir. 25 þeirra eru í lífshættu og 33 alvarlega slasaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×