Erlent

Eldfjall veldur áhyggjum vegna kjarnaofns

Samúel Karl Ólason skrifar
Sakurajima er nærri um 600 þúsund manna byggð og kjarnorkuofni.
Sakurajima er nærri um 600 þúsund manna byggð og kjarnorkuofni. Vísir/AFP
Íbúum nærri Sakurajima eldfjallsins í Japan hefur verið tilkynnt að mögulega muni þau þurfa að flýja svæðið í flýti. Viðbragðsaðilar voru settir á næst hæsta viðbragðsstig í gær eftir að mikil skjálftavirkni greindist í fjallinu. Líkur á eldgosi voru taldar miklar, en þó hefur dregið úr virkni í gígnum í dag og útlit er fyrir að kvika sem hafi safnast þar fyrir hafi sigið aftur.

Sérfræðingar telja þó nauðsynlegt að fylgjast náið með fjallinu og útiloka ekki neitt.

Eldfjallið er í einungis 50 kílómetra fjarlægð frá Sendai kjarnorkuofninum sem var gangsettur á þriðjudaginn í fyrsta sinn frá 2011. Um er að ræða fyrsta ofninn sem er gangsettur eftir að öryggisreglur voru hertar í kjölfar jarðskjálftanna árið 2011 og stórslyssins í Fukushima orkuverinu.

Á vef Japan Times segir að þegar séu einhverjir íbúar af um 600 þúsund búnir að yfirgefa svæðið.

Gangsetning kjarnaofnsins hefur mætt gagnrýni og telja margir að kjarnaofnar Japan séu enn viðkvæmir gagnvart náttúruhamförum. Jarðskjálftar eru mjög algengir í Japan og er talið að allt að 100 virk eldfjöll séu þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×