Erlent

Karl dulbúinn sem kona varð 15 að bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svona var umhorfs á markaðnum eftir sprengjuárásina í dag.
Svona var umhorfs á markaðnum eftir sprengjuárásina í dag. vísir/getty
Fimmtán létust og 80 eru særðir eftir sjálfsmorðssprengjuárás á fjölmennan markað í höfuðborg Tsjad, N‘Djamena í dag.

Árásarmaðurinn faldi sprengjurnar innanklæða en hann var klæddur í búrku frá toppi til táar.

Þeir látnu, níu konur og fimm karlar, voru öll starfsmenn á markaðnum. Árásarmaðurinn, sem ekki hefur enn verið borið kennsl á, var þá einnig á meðal hinna látnu.

Maðurinn var dulbúinn sem kona en lögreglan reyndi að aftra för hans þegar hann hugðist ganga inn á markaðinn en í Tsjad er ólöglegt að klæðast búrkum sem hylja allan líkamann.

Búrkubanni var komið á í landinu eftir sambærilegar árásir um miðjan júnímánuð þar sem sprengjur sem einnig höfðu verið faldar innanklæða drógu á fjórða tug til dauða.

Sjónarvottar segja að árásarmaðurinn, sem var einn á ferð, hafi kyrjað bænir á arabísku áður en hann lét til skarar skríða. Það var ekki fyrr en eftir árásina sem lögreglan áttaði sig á því að um karlmann hafi verið að ræða.

Þrátt fyrir að enginn hafi lýst yfir ábyrgð á ódæðinu er talið líklegt að um vígamann á vegum hryðjuverkasamtakana Boko Haram hafi verið að ræða.

Samtökin hafa lengið hótað tsjadískum stjórnvöldum vegna stuðnings þeirra við nígeríska stjórnarherinn í baráttu sinni við samtökin.

„Það er hræðilegt að þetta skuli gerast meðan hið heilaga Ramadan stendur yfir,“ sagði einn íbúi svæðisins í samtali við Reuters. „Og það við hliðina á stærstu moskunni í N‘Djamena.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×