Erlent

NASA birtir nýjar myndir af Plútó

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má glöggt sjá hið svokallaða hjarta á suðurhveli Plútós.
Hér má glöggt sjá hið svokallaða hjarta á suðurhveli Plútós. mynd/nasa

Bandaríska geimferðastofnunin NASA birti í kvöld nýjar myndir af dvergplánetunni Plútó og fylgitungli þess, Karon, sem könnunarfarið New Horizonz fangaði á för sinni til reikistjörnunnar.



Feiknarhá ísfjöll, dökkur blettur á norðurskauti Karons sem hefur fengið nafnið „Mordor,“ kartöflulaga fylgitunglið „Hydra“ og gríðarstórt hjartalaga landsvæði á Plútó eru meðal þess sem myndirnar hafa leitt í ljós og vísindamenn hoppa nú hæð sína af kæti yfir.



„New Horizons er nú þegar að skila okkur ótrúlegum niðurstöðum. Gögnin eru gjörsamlega gullfalleg og Plútó og Karon eru bara æðisgengin,“ sagði Alan Stern í samtali við fjölmiðla ytra í dag en er einn þeirra sem stýrir för geimfarsins.



Talið er að ísfjöllin, sem mörg hver eru um 3500 metra há, séu með þeim yngstu í sólkerfinu og hafi myndast fyrir um 100 milljónum ára.  Í ljósi ungs aldurs kunni þau enn að vera „jarðfræðilega virk,“ eins og það er orðað á heimasíðu NASA. 



Flestar litlir íshnettir eru mótaðir af aðdráttarafli stærri stjarna en slíkt verkun á ekki við í tilfelli fjallana á Plútó. Eitthvað annað hlýtur því að búa þar að baki sem vísindamenn kunna litla skýringu á að svo stöddu.



„Þetta gæti orðið til þess að við þurfum að endurskoða hvernig við hugsum um þá þætti sem hafa áhrif á jarðvirkni íshnatta,“  sagði vísindamaðurinn John Spencer um þessa uppgötvun.



Frekari upplýsingar um leiðangurinn má nálgast á heimasíðu NASA.

Hér má sjá Karon og „Mordor" á norðurskautinu.mynd/nasa
Yfirborð Plútó er ísilagt.mynd/nasa
Hin kartöflulaga Hydra er eitt af fylgitunglum Plútós.mynd/nasa

Tengdar fréttir

NASA birtir mynd af Plútó

Geimfarið New Horizons flaug framhjá Plútó í hádeginu, um 12.500 kílómetrum frá yfirborðinu dvergreikistjörnunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×