Erlent

Skuggi nasismans plagar bresku krúnuna

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsíða breska götublaðsins The Sun í dag.
Forsíða breska götublaðsins The Sun í dag. Vísir/AP
Breska konungshöllin hefur lýst vonbrigðum sínum með birtingu myndbands þar sem sést hvar föðurbróðir Elísabetar drottningar kennir henni að heilsa að sið nasista þegar hún var sjö ára gömul.

Götublaðið The Sun hefur birt á heimasíðu sinni kvikmyndabút sem tekinn var um sex mánuðum eftir að Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi árið 1933. Þar sést hvar prinsinn af Wales og föðurbróðir Elísabetar Englandsdrottingar, sem síðar varð Játvarður VIII konungur Bretlands, kennir hinni sjö ára Elísabetu að heilsa að sið nasista.

Ekki er vitað hvaðan myndbandið kemur en leitt að því líkur að það hafi komið í leitirnar þegar konungshöllin veitti aðgang að myndefni við gerð heimildarmyndar um drottninguna þegar hún varð níræð í fyrra. Dickie Arbiter sérfræðingur í málefnum bresku krúnunnar segir að vissulega hafi komið í ljós síðar að prinsinn af Wales hefði hrifist af nasismanum.

„Það verður að setja hlutina í samhengi. Kvikmyndin er tekin árið 1933. Hitler var nýkominn til valda. Kvikmyndin hefur sennilega verið tekin við Balmoral kastala það sumar. Hitler hafði þá að öllum líkindum verið við völd í sex mánuði. Elísabet prinsessa var þá sjö ára og Margrét systir hennar þriggja ára og þau eru að fíflast vegna þess að enginn vissi hvað beið umheimsins síðar á fjórða áratugnum,“ segir Arbiter.

Breska konungsfjölskyldan hefur lengi verið viðkvæm fyrir þýskum uppruna sínum. Georg V, afi Elísabetar, breytti ættarnafninu í Windsor undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1917. En það hafði áður verið Saxe-Coburg und Gotha, sem einnig er ætt Margrétar II drottningar Danmerkur.

Viðurkennd söuguskoðun hefur verið að Játvarður hafi afsalað sér krúnunni vegna þess að hann fékk ekki að giftast ástkonu sinni Wallis Simpson. Hins vegar telja síðari tíma sagnfræðingar skýringuna hafa verið samúð hans með málstað nasista, sem ráðmenn í Bretlandi hafi ekki umborið.

Stig Abell, aðalritstjóri The Sun, telur myndefnið eiga erindi við almenning og Sun hafi sett birtinguna í sögulegt samhengi hlutanna.

„Þetta er forvitnilegt myndefni. Ekki hvað síst vegna þess að Játvarður VIII varð konungur árið 1936. Árið 1937 fer hann til Þýskalands (þar sem hann hitti Hitler) og árið 1940 varð til samsæri í Þýskalandi um að koma honum aftur í breska hásætið. Og skömmu áður en hann lést árið 1970 sagði hann að Hitler hafi ekki verið vargur seinni heimsstyrjaldarinnar. Það hafi verið gyðingar og kommar sem komu henni af stað. Þetta er maður sem var í miðju breska ríkisins,“ segir Stig Abell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×