Fótbolti

Hannes: Ekki mitt fyrsta val að spila í næstefstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes hefur leikið 27 A-landsleiki.
Hannes hefur leikið 27 A-landsleiki. vísir/ernir
„Það er alltaf gaman að koma til Íslands og það er mikil stemmning í mannskapnum,“ sagði Hannes Þór Halldórsson fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun en framundan er mikilvægur leikur við Tékka í undankeppni EM 2016 á föstudaginn.

„Spennan og eftirvæntingin fyrir leiknum fer ekkert framhjá okkur. Það er ekkert að ástæðulausu að það sé stemmning fyrir leiknum enda er hann risastór og við eigum möguleika á að komast í lykilstöðu í riðlinum,“ bætti markvörðurinn við.

Hef haldið mínu striki frá því í fyrra

Hannes leikur með Sandnes Ulf í norsku B-deildinni en fer ekkert leynt með áhuga sinn að spila í sterkari deild.

„Það hefur gengið vel hjá mér persónulega á þessu tímabili og ég hef haldið mínu striki frá því í fyrra. Ég er í góðu standi og geri mitt besta til að hjálpa liðinu að komast upp í efstu deild á ný,“ sagði Hannes sem leikur væntanlega sinn 28. landsleik á föstudagin.

„Það er erfitt að segja en maður verður að gera ráð fyrir því,“ sagði markvörðurinn aðspurður hvort hann myndi klára tímabilið með Sandnes Ulf.

„Maður reiknar ekki með neinu öðru en því sem maður er með í hendi. Ég hef ekkert farið í neinar grafgötur með það þarna úti að það er ekki mitt fyrsta val að spila í næstefstu deild,“ sagði Hannes en hefur hann fengið einhver tilboð eða fyrirspurnir frá öðrum liðum?

„Það eru alltaf einhver símtöl og annað slíkt eins og hefur verið síðan ég byrjaði að spila með landsliðinu. Maður verður að læra að taka því með stóískri ró og miklum fyrirvara því það er ekkert fast í hendi fyrir en hlutirnir eru komnir á pappír.“

Efsta deild í Skandinavíu góður kostur

Hannes segist vera opinn fyrir því að spila í efstu deild í Noregi á nýjan leik.

„Það er ekki eins og markmenn vaði í valkostum og maður þarf bara að skoða það sem kemur upp. Það koma komið fyrirspurnir frá mörgum löndum en efsta deild í Skandinavíu er góður kostur,“ sagði Hannes sem er ánægður með lífið í atvinnumennskunni.

„Mér líkar þetta mjög vel. Það eru mikil viðbrigði að mæta á 1-2 fótboltaæfingar á dag og einbeita sér eingöngu að því. Ég kann að meta það.

„Þótt maður sé ekki í stærsta liðinu er það mikil breyting fyrir mig að vera 100% atvinnumaður og ég hef bætt mig mikið sem markmaður við það.

„Fjölskyldunni líður vel þarna úti en ég neita því ekki að mig langar að spila í sterkari deild,“ sagði Hannes að endingu.


Tengdar fréttir

Alfreð: Ár sem mun gefa mér rosalega mikið

Alfreð Finnbogason vill vera áfram hjá Real Sociedad þrátt fyrir lítinn spilatíma á sinni fyrstu leiktíð á Spáni. Honum fannst leiktíðin skemmtileg þótt erfitt hafi verið að sitja jafnmikið á bekknum og raun bar vitni.

Emil: Við munum vinna Tékka

„Eins og svo oft áður er mjög góð stemning hjá okkur. Ég held hún sé jafnvel enn betri en áður miðað við okkar stöðu og hvernig við höfum staðið okkur," segir Emil Hallfreðsson yfirvegaður fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×