Fótbolti

Rúnar Már: Vonast til að komast í betra lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar á æfingunni í morgun.
Rúnar á æfingunni í morgun. vísir/valli
„Það er virkilega gaman að vera kominn heim og stoltur og ánægður að vera í landsliðinu,“ sagði Rúnar Már Sigurjónsson fyrir æfingu íslenska landsliðsins í morgun en liðið undirbýr sig nú af kappi fyrir leikinn gegn Tékklandi í undankeppni EM 2016 á föstudaginn.

Rúnar hefur verið viðloðandi landsliðið undanfarin ár en gerir hann sér vonir um að spila eitthvað á föstudaginn?

„Ég er ekki með neinar kröfur en ég er ekki kominn hingað til að dást að frábærum leikmönnum landsliðsins. Ef þjálfararnir gefa mér mínútur er ég tilbúinn að spila.“

Rúnar leikur með GIF Sundsvall í Svíþjóð og hefur gert síðan 2013. Liðið vann sér sæti í úrvalsdeildinni í fyrra og er sem stendur í 13. sæti deildarinnar.

„Við byrjuðum mjög vel og höluðum inn fullt af stigum, sérstaklega á heimavelli, en það hefur gengið illa að undanförnu. Við spilum flottan fótbolta en við náum ekki að skora.

„En ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessu. Við föllum ekkert, við erum nógu góðir til að halda okkur uppi. Þegar þetta fer loksins að falla með okkur förum við að halda inn stig,“ sagði Rúnar en hvernig hefur honum gengið persónulega á sínu fyrsta tímabili í sænsku úrvalsdeildinni.

„Nokkuð vel. Ég var meiddur allt undirbúningstímabilið og var klár rétt fyrir fyrsta leik. Ég er ekki i eins góðu formi og ég hefði viljað vera í en finn að ég verð betri og betri með hverjum leiknum,“ sagði Rúnar sem hefur hug á því að spila með sterkara liði í framtíðinni.

„Ég vonast eftir að geta farið eftir þetta ár. En það eru margir sem eru að renna út á samning þannig að það er mikil óvissa hjá félaginu. En eins og staðan er núna lítur þetta ekkert alltof vel út, það gengur illa að semja við leikmenn.

„Ég vonast til að standa mig, haldast heill og verða vonandi seldur eftir tímabilið. En eitt ár í viðbót í Sundsvall er ekkert hræðilegt,“ sagði Rúnar að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×