Fótbolti

Alfreð: Sé þjónustu minnar ekki óskað skoða ég eitthvað annað

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason vill vera áfram hjá Real Sociedad.
Alfreð Finnbogason vill vera áfram hjá Real Sociedad. vísir/valli
Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji Íslands, var léttur í bragði þegar Vísir ræddi við hann fyrir æfingu landsliðsins í Laugardalnum í morgun.

Fyrir höndum er mikilvægur leikur gegn Tékklandi á föstudagskvöldið í undankeppni EM 2016, en þrjú stig þar færir strákana okkar nær Evrópumótinu í Frakklandi á næsta ári.

„Brjálæðið er að byrja og það er gaman að taka þátt í þessu. Maður er í fótbolta fyrir svona vikur og svona leiki,“ segir Alfreð við Vísi.

Vildi meira hjá Real

Alfreð er nýbúinn að klára sína fyrstu leiktíð með Real Sociedad á Spáni. Þar var hann mikið á bekknum, en framherjinn spilaði í heildina 25 deildarleiki og skoraði tvö mörk. Hann var aðeins sex sinnum í byrjunarliðinu.

„Auðvitað vildi ég meira, það er ekkert leyndarmál. Ég náttúrlega lærði ótrúlega mikið á þessu ári, bæði um sjálfan mig og fótboltann,“ segir Alfreð.

„Ég var að spila í bestu deild í heimi og kom á alla þessu nýju velli á móti frábærum leikmönnum. Maður sá að maður þarf alltaf að vera 100 prósent til að standa sig í svona deild. Þetta ár mun gefa mér rosalega mikið.“

Ekki á útleið

Strax eftir tímabilið var Alfreð orðaður við brottför frá Baskalandi, en Roberto Martínez er sagður áhugasamur um að fá hann til liðs við Everton á láni.

„Maður er orðinn vanur því, eins og í Hollandi, að það er alltaf verið að orða mann við einhver lið. Ég tek því með miklum fyrirvara og er ekkert að stressa mig á því,“ segir Alfreð.

Þrátt fyrir fá tækifæri á síðustu leiktíð er ekkert fararsnið á Alfreð sem vill bara sanna sig hjá Real Socidad.

„Ég hef hug á að vera áfram. Ég ætla bara fara þarna á undirbúningstímabilið og nýta mín tækifæri og berjast fyrir mínu eins og ég gerði á þessu tímabili. Ef ég fæ skilaboð um að minnar þjónustu verður ekki óskað þá skoða ég eitthvað annað,“ segir Alfreð Finnbogason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×