Erlent

Sjálfsmorðssprengjuárás skók höfuðborg Tsjad

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá vettvangi árásarinnar
Frá vettvangi árásarinnar Vísir/EPA
Tuttugu og sjö manns létust og rúmlega 100 særðust í tveimur sjálfsmorðssprengjuárásum í höfuðborg Tsjad í gær.

Enginn hefur lýst ódæðinu á hendur sér en árásirnar eru fordæmalausar í borginni.

Árásirnar áttu sér stað að morgni dags við lögreglustöð í höfuðborginni N'Djamena.

Að sögn sjónarvotta keyrðu tveir mótorhjólamenn með sprengjubelti um sig miðja inn í lögreglustöðina með þeim afleiðingum að á þriðja tug lögreglumanna létu lífið.

Öllum götum í miðborg N'djamena var lokað í kjölfar árásarinnar og þá var öryggisgæsla aukin við allar opinberar byggingar í höfuðborginni.

Þrátt fyrir að enginn hafi lýst yfir ábyrgð á árásunum beinast öll spjót að hryðjuverkasamtökunum Boko Haram.

Þau hafa lengið hótað tsjadískum stjórnvöldum vegna stuðnings þeirra við nígeríska stjórnarherinn í baráttu sinni við samtökin.

Talið er að Boko Haram hafi á undanförnum sex árum dregið um 23 þúsund manns til dauða í ríkjum Mið-Afríku og fregnir af sprengjuárásum samtakanna berast nær vikulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×