Enski boltinn

Lennon treystir á reynsluna gegn Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári hefur spilað fjölmarga leiki gegn Liverpool á Anfield á ferlinum.
Eiður Smári hefur spilað fjölmarga leiki gegn Liverpool á Anfield á ferlinum. vísir/getty
Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton Wanderers, er óhræddur að nota Emile Heskey og Eið Smára Guðjohnsen þrátt fyrir framherjarnir séu samanlagt 73 ára.

„Það er einhver mýta að menn séu útbrunnir þegar þeir komast á fertugsaldurinn. Það er algjört kjaftæði,“ sagði Lennon en Bolton sækir Liverpool heim í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í dag.

„Ég spilaði á móti Paolo Maldini, Alessandro Costacurta, Paul Scholes og Xavi þegar þeir voru komnir yfir þrítugt. Xavi var ennþá einn besti leikmaður heims þegar hann var 32, 33 ára.

„Sumir þjálfarar setja aldurinn fyrir sig en ekki ég. Ég horfi bara á hæfileika leikmannsins og hvað hann hefur fram að færa,“ sagði Lennon og bætti við að Eiður og Heskey hafi bætt Bolton-liðið síðan þeir byrjuðu að leika með því.

Eiður og Heskey, sem lék um árabil með Liverpool, hafa leikið samtals 140 landsleiki og unnið flest það sem hægt er að vinna í boltanum. Þrátt fyrir það segir Lennon að þeir séu manna spenntastir fyrir leiknum á Anfield.

„Ég vona að Eiður og Heskey sýni gamla takta. Þeir þekkja þessa stöðu og út á hvað þetta gengur. Þeir hlakka líklega mest til leiksins af öllum í hópnum,“ sagði Norður-Írinn.

Leikur Liverpool og Bolton hefst klukkan 17:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Heskey varð bikarmeistari með Liverpool 2001.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×