Erlent

Grikkir handtaka grunaða hryðjuverkamenn

Bjarki Ármannsson skrifar
Vopnaðir hermenn sjást nú víða á götum úti í Belgíu.
Vopnaðir hermenn sjást nú víða á götum úti í Belgíu. Vísir/AP
Lögregla í Grikklandi hefur handtekið fjóra sem grunaðir eru um að tengjast hryðjuverkaógninni í Belgíu. Talið er að einn þeirra sé Abdelhamíd Abaaúd, 27 ára Belgi sem er eftirlýstur og talinn foringi jíhad-hóps sem lenti í skotárás við lögreglu í bænum Verviers á fimmtudag. Þar létu tveir lögreglumenn lífið.

Mikill lögregluviðbúnaður er um alla Evrópu í kjölfar árásar hryðjuverkamanna á höfuðstöðvar tímaritsins Charlie Hebdo í París. Í Belgíu standa hermenn nú vörð um skóla Gyðinga og opinberar byggingar vegna gruns um að hryðjuverkaárás sé í bígerð.

Belgar hafa ekki síst áhyggjur af þeim ríkisborgurum sínum sem farið hafa til Íraks og Sýrlands til þess að berjast fyrir hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið. Um 350 Belgar eru sagðir hafa farið út að berjast og um hundrað eru komnir aftur til landsins.

Einn þeirra sem handtekinn var í Grikklandi í dag er sagður hafa verið í sambandi við íslamistana sem börðust við lögreglu í Verviers. BBC greinir frá því að gríska lögreglan hefur sent DNA-sýni úr hinum handteknu til starfsbræðra sinna í Belgíu til frekari rannsóknar. Enginn hinna handteknu hefur verið nafngreindur.


Tengdar fréttir

Óþarft að hækka vástig

Orð Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns um könnun á bakgrunni íslenskra múslima vekja hörð viðbrögð. Hættustig vegna hryðjuverkaógnar er metið lágt á Íslandi.

Áhyggjur af öryggi hafa aukist

Kveikt var í ritstjórnarskrifstofum þýska dagblaðsins Morgenpost í Hamborg um helgina. Blaðið hafði endurbirt myndir úr Charlie Hebdo.

Hert öryggisgæsla í Frakklandi

Her- og lögreglumenn verða sýnilegri í Frakklandi og munu koma til með að gæta mögulegra skotmarka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×