Innlent

Feðgarnir búnir að opna í gamla húsnæði Caruso: „Gengið vonum framar“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Eigendur og starfsmenn Caruso hjálpuðust að við að flytja mat og vín út af veitingastaðnu
Eigendur og starfsmenn Caruso hjálpuðust að við að flytja mat og vín út af veitingastaðnu vísir/vilhelm
Búið er að opna nýjan veitingastað í gamla húsnæði Caruso við Þingholtsstræti 1 í Reykjavík. Veitingastaðurinn heitir Primo og opnaði síðasta föstudag. Það eru feðgarnir Jón Ragnarsson og Valdimar Jónsson sem eiga og reka staðinn.

„Þetta hefur gengið vonum framar allt frá því við opnuðum, en við áttum ekki von á þessum góðu móttökum miðað við öll þessi neikvæðu skrif um okkur,“ segir Valdimar.

Primo var áður staðsettur við Grensásveg en var lokað í nóvember. Þá hafði hann verið starfræktur í rúmt ár. Haukur Víðisson matreiðslumeistari var rekstraraðili staðarins en Valdimar og Jón keyptu nafnið, heimasíðuna og Facebook-síðuna í janúarbyrjun að því er fram kemur á Veitingageirinn.is.

Mál Caruso vakti mikla athygli í desember. Jón og Valdimar virtust hafa tekið sér lögregluvald, farið inn á staðinn í leyfisleysi og skipt þar um skrár til að koma í veg fyrir að eigandi Caruso og starfsmenn kæmust þangað inn. Veitingastaðurinn Caruso opnaði þó skömmu síðar á öðrum stað – við Austurstræti 22, skömmu fyrir jól.

Sjá einnig: Ferill eiganda húsnæðis Caruso rakinn

Valdimar segir að alltaf hafi staðið til að opna nýjan veitingastað í þessu sama húsnæði en eftir að þeir feðgar tóku yfir húsið buðu þeir starfsmönnum Caruso vinnu.

„Samkvæmt reglum þá ber okkur að bjóða fyrrverandi starfsmönnum vinnu,“ segir hann en vill ekki segja til um það hvort starfsmenn Caruso hafi þáð atvinnutilboðið. Aðspurður hvort auglýst hafi verið eftir vinnuafli segir hann: „Þess þurfti ekki. Eftirspurnin var svo mikil.“

Veitingastaðurinn Caruso er auglýstur sem ítalskur staður og það er Primo sömuleiðis. Valdimar segir hann þó ekki vera í anda Caruso.


Tengdar fréttir

Lögreglan gerir ekki neitt í Caruso-málinu

Eigandi veitingastaðarins Caruso fær enga aðstoð frá lögreglu við að komast inn á staðinn eftir að húseigandinn réðst þangað inn og skipti um skrár. Sérfræðingur segir lögregluna með þessu viðurkenna það að menn taki lögin í sínar hendur.

Neitaði að yfirgefa Caruso og því vísað út af lögreglu

Starfsmenn Caruso fengu loks í gær að sækja eigur sínar. Veitingamaðurinn endurheimti þó ekki nema hluta af eigum sínum þar sem lögregla skilgreindi nákvæmlega hvaða eigur mætti fjarlægja. Lögmaðurinn forviða.

Caruso opnar á nýjum stað

"Þetta er búið að vera hrikalega löng vika,“ segir Þrúður Sjöfn Sigurðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×