Leiðtogarnir töluðu um að hernaðaraðgerðir í Sýrlandi yrðu að leiða til pólitískrar lausnar á ástandinu í landinu. Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í lok september og þar að auki hafa vopnaðar sveitir Hezbollah samtakanna og íranskir hermenn gengið til liðs við sýrlenska herinn.
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst í mars árið 2011, eftir að stjórnvöld Assad börðu niður friðsöm mótmæli gegn einræði fjölskyldu forsetans.Hafez al-Assad, faðir Bashar, tók völd í Sýrlandi í valdaráni árið 1970.
Bashar varð forseti árið 2000, þá 34 ára gamall, en upprunalega stóð til að eldri bróðir hans Basel tæki við af föður þeirra. Basel var hermaður og hafði verið mótaður til að taka við, en hann lét þó lífið í bílslysi árið 1994. Bashar var kallaður heim í skyndi, en hann hafði þá búið í London, þar sem hann lagði nám á augnlækningar.
Rússar segjast vera að gera loftárásir gegn Íslamska ríkinu og öðrum hryðjuverkasamtökum. Þjóðir eins og Tyrkland, Bandaríkin og Frakkland segja hins vegar að árásir Rússa beinist að mestu gegn uppreisnarhópum sem berjist gegn stjórn Assad fjölskyldunnar og eru studdir af meðal annars Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu.
Þá segja þeir að inngrip Rússa muni lengja átökin í Sýrlandi.
Hér má sjá yfirlit yfir loftárásir Rússlands í Sýrlandi sem unnið er af Institute for the Study of War. Kortið er unnið upp úr tilkynningum stjórnvalda í Sýrlandi og víðar, samfélagsmiðlum og tilkynningum aðgerðasinna í Sýrlandi eins og Syrian observatory for human rights, sem rekur stórt net heimildarmanna í Sýrlandi.
Talsmaður Putin vildi ekki segja fjölmiðlum nánar frá viðræðum forsetanna né hvað þeir hefðu sérstaklega rætt.