Erlent

Nýjar myndir af skæru blettunum á Ceres

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/NASA/JPL
Nýjar myndir úr geimfarinu Dawn af dvergplánetunni Ceres hafa verið birtar. Í byrjun sumars voru birtar myndir þar af Occator gígnum þar sem sjá mátti skæra bletti á plánetunni. Þessar myndir vöktu forvitni margra, en nú hafa verið birtar myndir sem sýna blettina af meiri nákvæmni, eða í um þrefalt betri upplausn en þær myndir sem teknar voru í júní og tíu sinnum betri en myndirnar sem teknar voru í apríl og maí.

Sjá einnig: Skærir blettir Ceres myndaðir

Blettirnir sem um ræðir eru mun bjartari en aðrir hlutar yfirborðs Ceres. Blettirnir eru eins og áður segir staðsettir í Occator gígnum. Vísindamenn bandarísku geimvísindastofnunarinnar (e. NASA) hafa tekið eftir því að veggir gígsins eru víða næstum því lóðréttir, en gígurinn er nærri því tveggja kílómetra djúpur.

Fleiri myndir frá NASA og þar á meðal myndir frá Dawn geimfarinu má sjá hér á vef NASA.

Ceres er dvergpláneta og er hluti af smástirnabelti á milli Mars og Júpiter. Dawn er fyrsta geimfarið sem sent er til beltisins. Geimfarið var á sporbraut um smástirnið Vista í um fjórtán mánuði árin 2011 og 2012. Frekari upplýsingar um Dawn má finna hér á vef NASA.

Vísindamenn NASA vita enn ekki hvað gerir þessa bletti svo skæra, en Marc Rayman, leiðtogi Dawn verkefnisins, segir að rannsóknir þeirra muni fljótlega varpa ljósi á þessa ráðgátu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×