Erlent

Fleiri láta lífið í átökum í Bagdad

Bjarki Ármannsson skrifar
Þessi mynd var tekin eftir bílasprengingu í borginni fyrr í vikunni.
Þessi mynd var tekin eftir bílasprengingu í borginni fyrr í vikunni. Vísir/AP
Rúmlega 50 manns eru látnir og fleiri tugir manna særðir eftir röð sprenginga í Bagdad, höfuðborg Íraks, í kvöld.

Að minnsta kosti átta mismunandi árásir áttu sér stað víðsvegar um borgina á einum klukkutíma, samkvæmt BBC. Skotmörkin voru fyrst og fremst hverfi Shia-múslima.

Ofbeldi í landinu hefur færst í aukana undanfarið og segja Sameinuðu Þjóðirnar að rúmlega átta þúsund manns hafi látist í átökum í landinu í fyrra, sem er hæsta tala látinna frá því árið 2007. Ríkisstjórnin kennir skæruliðum Sunni-múslima um auknar blóðsúthellingar en aðrir hafa ásakað ríkisstjórn Nouri Maliki forsætisráðherra, sem er Shia-múslimi, um að styggja Sunni-hópinn.

Auk sprenginganna um kvöldið sátu skæruliðar um háskólasvæði í bænum Ramadi fyrr um daginn. Nemendur voru teknir í gíslingu og er talið að nokkir hafi látið lífið í skothríð þegar árásarmennirnir voru hraknir í burtu.


Tengdar fréttir

Níu létust í sjálfsmorðssprengjuárás í Bagdad

Að minnsta kosti níu manns féllu í sjálfsmorðssprengjuárás sem var gerð á lögreglustöð í Írak í dag. 35 særðust en árásin var gerð í Suwayrah, suður af höfuðborginni Bagdad.

Ofbeldi eykst í Írak

Fjörutíu og einn lést og 129 særðust í árásum í tveimur sjálfsmorðsárásum í Írak dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×