Erlent

Samtals 238 ára fangelsi fyrir að pynta börnin sín

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lakechia og Andrew Stanley
Lakechia og Andrew Stanley
Lakechia Schonta Stanley, 34 ára gömul kona frá St. Louis í Missouri fylki, hefur verið dæmd í 78 ára fangelsi fyrir stórfelldar pyntingar á börnum sínum.

Upp komst um brotin í október 2011 þegar tíu ára dóttir konunnar kvartaði undan verk í hendi við starfsmann bókasafnsins í skólanum hennar. Við skoðun á sjúkrahúsi kom í ljós að blóðflæði út í hendina var takmarkað sökum barsmíða. Hafði Stanley ráðist á dóttur sína með hafnaboltakylfu vegna þess að hún þreif eldhúsið ekki nægilega vel. Yngri systir hennar hafði einnig orðið fyrir ofbeldi.

Við nánari skýrslutöku kom frekara ofbeldi í ljós. Hafði hún lamið börn sín með rafmagnsköplum, hent þeim í brennandi heitar eða ískaldar sturtur, lamið þær með hinum ýmsu bareflum auk þess að hafa pyntað þær með vatni með svokallaðri waterboarding aðferð. Er tuska þá lögð yfir vit fórnarlambsins og vatni hellt yfir til að skapa köfnunartilfinningu.

Konan var ekki ein um ofbeldið því eiginmaður hennar, Andrew Rui Stanley, hafði áður játað ýmis brot. Hann var dæmdur til að dúsa 160 ár í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×