Íris Dögg Gunnarsdóttir hefur verið lánuð í FH og mun því Þóra Björg Helgadóttir standa í marki Fylkis gegn Aftureldingu í kvöld.
Þetta staðfesti Ragna Lóa Stefánsdóttir, þjálfari Fylkis, í samtali við Vísi í dag.
Íris Dögg hefur átt frábært tímabil í marki Fylkis og haldið hreinu í sex deildarleikjum liðsins af átta.
Fylkir ákvað engu að síður að semja við Þóru Björgu Helgadóttur sem ákvað í vor að flytja aftur til Íslands eftir átta ára dvöl ytra. Hún er einn fremsti markvörður sem Ísland hefur átt og varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari með Breiðabliki og KR á sínum tíma.
Íris Dögg mun nú verja mark FH sem hefur fengið á sig flest mörk allra liða í deildinni í sumar eða 30 talsins í þeim níu leikjum sem búnir eru. FH er í áttunda sæti deildarinnar með átta stig.
