Erlent

Drap tugi námsmanna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íbúar í Potiskum fyrir utan skólann þar sem árásin var gerð í gær.
Íbúar í Potiskum fyrir utan skólann þar sem árásin var gerð í gær. fréttablaðið/AP
Nígería, AP Ekkert varð greinilega úr vopnahléi, sem stjórnvöld í Nígeríu sögðust hafa gert við vígasveitir uppreisnarmanna í norðausturhluta landsins.

Tvær sjálfsvígsárásir í borginni Potiskum hafa, með viku millibili, kostað samtals að minnsta kosti 78 manns lífið.

Í gær sprengdi maður sig í loft upp á samkomu í framhaldsskóla í borginni með þeim afleiðingum að nærri 50 námsmenn létu lífið, auk árásarmannsins. Viku áður hafði maður sprengt sig upp á trúarsamkomu í borginni.

Um tvö þúsund nemendur voru saman komnir snemma í gærmorgun þegar sprenging varð skyndilega.

„Við vorum að bíða eftir því að skólastjórinn ávarpaði samkomuna, um klukkan hálf átta að morgni, þegar við heyrðum ærandi hávaða og fæturnir kipptust undan mér,“ sagði Musa Ibrahim Yahaya, sautján ára nemi í skólanum sem ráðist var á: „Fólk tók að öskra og hlaupa, ég sá blóð út um allan líkama minn.“

Hann var kominn á sjúkrahús þar sem gert var að sárum á höfði hans. Frá sjúkrahúsinu fengust þær upplýsingar að 79 námsmenn hefðu verið lagðir inn. Sumir voru alvarlega særðir og líklega þurfti að fjarlægja útlimi af einhverjum þeirra.

Þá voru 48 lík flutt á sjúkrahúsið, og virtust þau öll vera af fólki á aldrinum 11 til 20 ára.

blóðbað Fyrir viku bjuggu íbúar sömu borgar tugi líka til greftrunar eftir sams konar árás.fréttablaðið/AP
Vitni segja árásarmanninn líklega hafa komist inn með sprengiefni í bakpoka. Fyrir nokkrum mánuðum skýrði herinn í Nígeríu frá því að sprengiefnaverksmiðja hefði fundist, þar sem unnið hefði verið að því að sauma sprengiefni inn í bakpoka.

Talið er að samtökin Boko Haram hafi staðið á bak við þessar árásir, en liðsmenn þeirra hafa undanfarin misseri herjað á almenning af mikilli grimmd. Í apríl síðastliðnum rændu þeir nærri 300 skólastúlkum. Sumum þeirra hefur tekist að flýja og lýsa þær hryllilegri meðferð sem þær máttu sæta af hálfu mannræningjanna.

Allt þetta segjast samtökin hafa gert í nafni heimatilbúinnar öfgaútgáfu af íslamskri trú. Nafn samtakanna, Boko Haram, mun þýða „menntun er af hinu illa“.

Hinn 17. október síðastliðinn sagðist Nígeríustjórn hafa samið um vopnahlé við Boko Haram, en Abubakar Shekau, leiðtogi samtakanna, sagðist aldrei hafa samið um slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×