Erlent

Kennarar fái að taka farsíma af nemum fyrir kennslustund

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Stjórnvöld í Svíþjóð vilja að skólalögunum verði breytt þannig að heimilt verði að taka farsíma af nemendum áður en kennslustundir hefjast. Markmiðið er að skapa meira næði til lærdóms. Jan Björklund, menntamálaráðherra Svíþjóðar, sagði í viðtali við sænska sjónvarpið að alltof margir nemendur gætu ekki einbeitt sér í kennslustundum þar sem þeir væru í leikjum í farsímanum eða uppteknir á samfélagsmiðlum. Tillagan er byggð á niðurstöðum rannsóknar sem gerð var í kjölfar síðustu PISA-könnunar sem sýndi að ónæði í kennslustundum er algengara í sænskum skólum en almennt í skólum innan OECD.

Samkvæmt núgildandi reglum í Svíþjóð hafa kennarar rétt til þess að taka farsíma af nemendum ef símanotkunin er truflandi. Kennarar hafa hins vegar ekki rétt til að taka símana af nemendum í forvarnarskyni áður en kennslustund hefst.

Talsmaður vinstrimanna í Svíþjóð, Rossana Dinamarca, segir tillöguna í andstöðu við tækniþróun auk þess sem kennurum verði fengið nokkurs konar lögregluhlutverk.

Á Íslandi gilda mismunandi reglur um notkun farsíma í skólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×