Innlent

Ósætti á ritstjórn DV: Blaðamenn íhuga stöðu sína

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá fundinum í gær. Blaðamenn DV íhuga margir hverjir að segja upp störfum vegna ósættis við stjórn blaðsins.
Frá fundinum í gær. Blaðamenn DV íhuga margir hverjir að segja upp störfum vegna ósættis við stjórn blaðsins. Vísir/GVA
Blaðamenn DV eru margir hverjir að íhuga stöðu sína í kjölfar ritstjóraskipta og deilna við stjórn blaðsins. DV kemur ekki út í dag en á starfsmannafundi í gær lýstu nokkrir starfsmenn yfir megnri óánægju sinni gagnvart Þorsteini Guðnasyni, stjórnarformanni blaðsins, yfir því hvernig Reyni Traustasyni ritstjóra var vikið úr starfi og yfir áætlaðri úttekt á faglegum þáttum í starfsemi miðilsins, sem nú hefur verið hætt við.

Þetta herma nokkrir starfsmenn DV sem fréttastofa ræddi við. Að þeirra sögn er stefnt að því að gefa út blað á morgun en fáir hafi verið í skapi til fréttaskrifa í kjölfar fundarins í gær.

Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri DV, er sagður í mjög óþægilegri stöðu.Vísir/GVA
Um misskilning að ræða

Þorsteinn tilkynnti um það í gærkvöldi að hætt hefði verið við faglegu úttektina vegna mikillar óánægju blaðamanna. Hann telur þó að um misskilning hafi verið að ræða að einhverju leyti.

„Nýr ritstjóri átti einfaldlega að hitta hvern og einn blaðamann og ræða við hann um faglega þætti blaðsins,“ segir Þorsteinn. „Það átti aldrei að vera neitt meira en það. En þá var náttúrulega þeim mun minna mál að falla frá því.“

Hann segist vona að traust myndist milli stjórnar og blaðamanna í kjölfar þess að hætt var við úttektina fyrirhuguðu. 

Þeir starfsmenn blaðsins sem fréttastofa ræddi við sögðu hins vegar að þeim þætti spurningum sínum um þessa rannsókn ekki hafa verið svarað, hvorki á fundinum né í tilkynningu Þorsteins frá því í gærkvöldi. 

Þá segjast þeir einnig mjög óánægðir með að Reynir Traustason hafi verið leystur undan starfsskyldum og honum meinað að mæta á vinnustað, frekar en að hann væri einfaldlega rekinn. Óánægja þeirra beinist þó ekki gegn Hallgrími Thorsteinsson, nýjum ritstjóra, sem sagður er í „mjög óþægilegri stöðu“.

Mun ekki biðjast afsökunar

Nokkrir starfsmenn fóru fram á afsökunarbeiðni frá Þorsteini vegna ummæla hans um Reyni Traustason, fráfarandi ritstjóra, en Þorsteinn telur ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á þeim.

„Það sneri að því að í tilkynningu frá því í ágúst sagðist ég vilja úttekt á fjárreiðum blaðsins, meðal annars til að hreinsa blaðið af öllum ásökunum,“ segir Þorsteinn, en greint var frá því um það leyti að útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson hefði lánað Reyni 15 milljónir króna til að kaupa hlutafé í félaginu. 

„En ég ákvað að leggja þá tillögu ekki fram á aðalfundi fyrir orð aðstoðarritstjóra DV.“


Tengdar fréttir

DV kemur ekki út á morgun

"Deilurnar í hluthafahópnum hafa verið erfiðar og margir eru sárir vegna yfirlýsinga og framgöngu sumra stjórnarmanna,“ segir Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri blaðsins

Reyni tíðrætt um jakkafötin

Kosning nýrrar stjórnar útgáfufélags DV er á dagskrá framhaldsaðalfundarins. Í kjölfarið tekur ný stjórn til starfa. Samkvæmt heimildum Vísis innan úr hluthafahópnum verður boðað til stjórnarfundar sem fyrst og verður þar rætt um ráðningu nýs ritstjóra.

Fjölmiðlanefnd flýtir skoðun á eignarhaldi

Fjölmiðlanefnd hefur ákveðið að óska eftir upplýsingum um rekstur og eignarhald fjölmiðla í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um málefni fjölmiðla undanfarið.

Reynir bíður eftir brottrekstrinum

„Þetta var hundleiðinlegur fundur. Hörkuátök og mikið af kaupsamningum voru gerðir á servíettur sem endaði með því að við töpuðum.“

Hætt við faglega úttekt á DV

Stjórn útgáfufélags DV hefur fallið frá þeirri ákvörðun að láta skoða sérstaklega faglega þætti ritstjórnar blaðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá útgáfufélaginu.

Ný stjórn DV kjörin á aðalfundi

Mikið gekk á á fundinum og gengu hlutabréf í félaginu kaupum og sölum. Skrifað var undir kaupsamninga hlutabréfa á servíettur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×