Erlent

Árásirnar á Gasa halda áfram

Þrír yfirmenn hernaðararms Hamas létust í loftárásum í fyrrinótt.
Þrír yfirmenn hernaðararms Hamas létust í loftárásum í fyrrinótt. Vísir/AP
Þrír háttsettir yfirmenn hernaðararms Hamas-samtakanna létu lífið í loftárás ísraelska hersins á Gasa snemma í fyrrinótt.

Þetta voru þeir Mohammed Abu Shamaleh, Raed Attar og Mohammed Barhoum. Að sögn lögreglunnar á Gasa og vitna féllu nokkrar sprengjur á fjögurra hæða hús, sem mennirnir voru staddir í. Lát yfirmannanna þriggja er að öllum líkindum töluvert áfall fyrir Hamas.

Ísraelar hafa hert árásir sínar á Gasa, en vopnahlé og viðræður í Egyptalandi fóru út um þúfur á miðvikudag án þess að nokkurt samkomulag næðist.

Meira en 2.000 Palestínumenn og 67 Ísraelar hafa látið lífið í átökum frá því árásir Ísraela á Gasa hófust fyrir hálfum öðrum mánuði.

Engin lausn er í sjónmáli, þar sem Ísraelar virðast engan áhuga hafa á að verða við kröfum Hamas um að einangrun Gasa verði aflétt, auk þess sem Ísraelar krefjast þess að Hamas-samtökin bæði afvopnist með öllu og tryggt verði að þau vopnist ekki á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×