Erlent

Bernie Ecclestone semur um málalyktir

Bjarki Ármannsson skrifar
Ecclestone yfirgefur dómsal í München í gær.
Ecclestone yfirgefur dómsal í München í gær. Nordicphotos/AFP
Réttarhöldum yfir Bretanum Bernie Ecclestone, eiganda Formúlu 1, lauk í gær þegar dómstóll í München samþykkti greiðslu frá auðkýfingnum upp á ellefu og hálfan milljarð króna. Ecclestone er þannig hvorki dæmdur sekur né saklaus en hann var ákærður fyrir mútugreiðslur í starfi.

Réttarhöldin yfir Ecclestone hófust í apríl en honum var gert að sök að hafa borgað þýska bankamanninum Gerhard Gribkowsky fimm milljarða króna til að tryggja að ákveðið fyrirtæki keypti hlut í Formúlunni.

Ecclestone segist hafa borgað peninginn eftir að sá þýski hótaði að dreifa röngum upplýsingum um skattamál hans. Gribkowsky hlaut átta og hálfs árs fangelsisdóm árið 2012 fyrir mútuþægni.

Ummæli og hegðun hins 83 ára Ecclestones sem er tólfti ríkasti maður Bretlands, hafa oft verið mjög umdeild. Hann var einnig rannsakaður af breskum yfirvöldum í níu ár vegna gruns um skattsvik.

Hann hefði getað þurft að þola tíu ára fangelsisdóm, hefði hann verið sakfelldur. Sakfelling hefði einnig markað endalok yfirráða Ecclestones í heimi kappaksturs, en hann hefur átt og rekið Formúlu 1 mótaröðina í áratugi.

Saksóknarar í Þýskalandi segja að hár aldur Ecclestones, ásamt öðrum þáttum, hafi veitt lagalegt rými til að semja.


Tengdar fréttir

Ecclestone heimtar meiri hávaða

Bernie Ecclestone segir nýju vélarhljóði stríð á hendur. Ecclestone hefur frá upphafi verið mótfallinn því að skipta yfir í V6 vélar. Hann segir að bílarnir verði að fara að hljóma aftur eins og kappakstursbílar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×