Erlent

Saka Hamas um mannrán

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ísraelskir hermenn hafa gert dauðaleit að þremur unglingum skammt frá borginni Hebron á Vesturbakkanum.
Ísraelskir hermenn hafa gert dauðaleit að þremur unglingum skammt frá borginni Hebron á Vesturbakkanum. Vísir/AP
Ísraelsk stjórnvöld hóta hörðum refsiaðgerðum gegn Palestínumönnum vegna þriggja ísraelskra ungmenna sem saknað er síðan á fimmtudag.

Ísraelar saka Hamas-samtökin um að hafa rænt ungmennunum. Moshe Yaalon, varnarmálaráðherra Ísraels, segir að Palestínumenn megi reikna með að gjalda mannránin dýru verði.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, notar tilefnið einnig til að hnýta í Mahmúd Abbas, forseta Palestínu, og segir hann bera á endanum ábyrgð á mannránunum þar sem Fatah-samtök hans hafi náð sáttum við Hamas og myndað þjóðstjórn í Palestínu.

Þeir Abbas og Netanjaú ræddust við símleiðis í gær vegna málsins, en bein samskipti þeirra hafa verið fátíð. Netanjahú óskaði eftir því að Abbas aðstoðaði við leitina að ungmennunum.

Ísraelski herinn hefur verið með fjölmennt lið á Vesturbakkanum að leita að ungmennunum. Þetta eru viðamestu aðgerðir hersins þar í nærri áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×