Erlent

Konungur segir nóg komið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Feðgarnir, Filippus krónprins og Jóhann Karl faðir hans.
Feðgarnir, Filippus krónprins og Jóhann Karl faðir hans. Nordicphotos/AFP
Jóhann Karl Spánarkonungur tilkynnti þjóðinni í gær að hann ætlaði að afsala sér konungstign og fá syni sínum krúnuna í hendur.

Jóhann Karl sagðist hafa farið að undirbúa afsögn sína í janúar síðastliðnum, þegar hann varð 76 ára. Felipe krónprins er 46 ára og mun vinsælli en faðirinn.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun, sem birt var í dagblaðinu El Mundo, eru 70 prósent Spánverja ánægðir með krónprinsinn, en aðeins 41 prósent með kónginn.

Jóhann Karl varð konungur árið 1975, tveimur dögum eftir að einræðisherrann Francisco Franco lést. Franco hafði stjórnað Spáni í nærri fjóra áratugi.

Feðgarnir að leik fyrir nærri fjörutíu árum, rétt áður en Jóhann Karl tók við konungsembættinu.Nordicphotos/AFP
Jóhann Karl ávann sér virðingu og vinsældir á meðal margra Spánverja með því að sjá til þess að lýðræði tæki við af einræðisstjórn Francos. Þá kom hann árið 1981 í veg fyrir herforingjabyltingu.

Ímynd konungsins hefur hins vegar dökknað töluvert á seinni árum vegna hneykslismála sem farið hafa illa í þjóðina.

Meðal annars þótti mörgum harla óskynsamlegt af konunginum að bregða sér í fílaveiðiferð árið 2012, einmitt á meðan Spánverjar þurftu að glíma við erfiðustu efnahagsþrengingar seinni ára. Í ferðinni mjaðmarbrotnaði konungurinn og þurfti að fljúga með hann í einkaþotu frá Botsvana til Spánar.

Þá hefur tengdasonur hans gert sitt til að sverta ímynd konungsfjölskyldunnar, en hann er grunaður um að hafa dregið sér fé í stórum stíl. 

Heilsu Jóhanns Karls hefur hrakað nokkuð á síðustu árum, en í sjónvarpsávarpi sínu í gær minntist hann hvorki á heilsu sína né hneykslismálin. Þess í stað bar hann Felipe son sinn lofi: „Sonur minn, arftaki krúnunnar, er stöðugleikinn holdi klæddur.“

Letizia prinsessa, kona Felipes og þar með verðandi drottning Spánar, er fyrrverandi sjónvarpsfréttakona. Þau eiga tvær dætur, sjö og átta ára gamlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×