Íslenski boltinn

Fékk leikbann fyrir kynþáttaníð í Garðinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rautt Kynþáttaníð er ekki boðlegt.
Rautt Kynþáttaníð er ekki boðlegt. Vísir/Getty
Á fundi stjórnar KSÍ í janúar voru gerðar breytingar á regluverki sambandsins hvað varðar aga- og úrskurðarmál. Ný grein, 16. grein aga- og úrskurðarmála, var tekin í notkun en hún var sett inn vegna tilskipunar Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Nýja ákvæðið tekur á mismunun og á að leggja áherslu á að taka fast á hvers kyns mismunun eða fordómum. Ákvæðið er þýðing á ákvæði í agareglugerð FIFA sem öllum knattspyrnusamböndum innan FIFA ber að taka upp, en öllum aðildarfélögum KSÍ var sent dreifibréf um tilkomu nýja ákvæðisins og hvaða viðurlög það hefur í för með sér.

Áður hafa íslenskir leikmenn verið settir í bönn og sektaðir fyrir mismunun á knattspyrnuvellinum en 16. greinin var fyrst notuð í agadómi KSÍ í síðasta mánuði þegar Gylfi Örn Á. Öfjörð, leikmaður Víðis í Garði, var úrskurðaður í fimm leikja bann og félagið sektað um 100.000 krónur vegna framferðis hans í leik Víðis og Ísbjarnarins í leik í C-deild Lengjubikarsins.

Gylfi fékk rautt spjald á 45. mínútu leiksins, sem fram fór 5. apríl í Garðinum, fyrir að beita Rui Pedro De Jesus Pereira, leikmann Ísbjarnarins, kynþáttaníði. Sá síðarnefndi tæklaði Gylfa hressilega og uppskar gult spjald en Gylfi svaraði fyrir sig með orðum sem ekki eiga að heyrast á knattspyrnuvelli frekar en annars staðar.

Þessi nýja 16. grein er í fimm liðum og má lesa hana á vefsíðu KSÍ. Augljóst er að hart á að taka á kynþáttaníði og allri mismunun. Lið getur til dæmis misst stig í móti gerist leikmenn og forsvarsmenn þess sekir um kynþáttaníð.

Þá getur áhorfandi sem beitir leikmenn kynþáttaníði verið settur í tveggja ára leikvallabann og viðkomandi félag sektað um 150.000 krónur án tillits til saknæmrar háttsemi eða yfirsjónar félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×