Erlent

Tók of krappa beygju

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kafarar eru enn að vinna að því að fara inn í króka og kima skipsins til að finna fleiri lík.
Kafarar eru enn að vinna að því að fara inn í króka og kima skipsins til að finna fleiri lík. Fréttablaðið/AP
Í gær, tíu dögum eftir að ferjan Sewol sökk suðvestur af Kóreuskaga, voru kafarar enn að kanna skipið í leit að líkum.

183 hafa fundist en 119 manns var enn saknað, og fullvíst talið að þeir væru allir látnir. Alls virðast 302 hafa farist með skipinu. 174 komust lífs af.

Enn hafa ekki fengist endanlegar skýringar á því að skipið sökk, en síðustu daga hefur athyglin beinst að því að ferjan hafi verið ofhlaðin.

Um borð voru 3.608 tonn af bifreiðum og öðrum varningi, en það er þrisvar sinnum meira en óhætt var. Þetta er líka mun meira en skipstjórinn hafði gefið upp á pappírum.

Hann sagði ferjuna hafa siglt af stað með 150 bifreiðar og 657 tonn af öðrum varningi.

Lykilatriði er hér að ferjunni var breytt árið 2012 þegar farþegarýmið var stækkað þannig að hún gæti flutt 921 farþega í staðinn fyrir 804.

Þessum breytingum fylgdu þau skilyrði að skipið mátti ekki lengur flytja nema þúsund tonna farm, en áður réði ferjan við meira en 2.500 tonn. Eftir breytingarnar þurfti einnig að sjá til þess að meira en 2.000 tonn af kjölfestuvatni væru í skipinu.

Þrátt fyrir þetta gaf útgerð skipsins upp að flutningsgeta þess væri 3.963 tonn, sem er óbreytt frá því áður en skipinu var breytt.

Skipstjóri ferjunnar var ekki við stýrið þegar kröpp beygja var tekin á leið skipsins. Beygjan var 45 gráður, sem virðist hafa verið meira en skipið réði við.

Skömmu síðar byrjaði það að hallast og sökk nokkrum tímum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×