Erlent

Rússar notfæra sér stöðu Úkraínu

Freyr Bjarnason skrifar
Segir Rússa hafa brotið alþjóðleg lög með því að ráðast inn á Krímskaga.
Segir Rússa hafa brotið alþjóðleg lög með því að ráðast inn á Krímskaga. Mynd/AP
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir það geta haft miklar pólitískar og efnahagslegar afleiðingar fyrir Rússa ef þeir vilja ekki ganga „til samningaviðræðna sem skila árangri“ vegna ástandsins í Úkraínu.

Merkel sagði á þýska þinginu að eina leiðin út úr ógöngunum væri með samningaviðræðum og bætti við að ekki komi til greina að beita herafli. Að sögn Merkel ætlar ESB og önnur vestræn ríki fljótlega að hefja frystingu bankainnistæðna og koma á ferðatakmörkunum í refsiskyni ef Rússar vilja ekki semja í málinu.

„Ef Rússland heldur áfram á þessari braut mun það ekki aðeins hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir Úkraínu,“ sagði hún. „Það mun valda Rússlandi miklum skaða, bæði pólitískum og efnahagslegum.“

Merkel sagði að ákvörðun Rússa um að fara með herlið inn á Krímskaga væri klárt brot á alþjóðlegum lögum og að Rússar væru að notfæra sér veika stöðu nágranna síns með aðferðum sem svipuðu til þeirra sem Evrópuveldi beittu á síðustu öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×