Erlent

Þrír sagðir andsetnir eftir að hafa farið í andaglas

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá hefðbunda útgáfu af spilaborði andaglass.
Hér má sjá hefðbunda útgáfu af spilaborði andaglass. Visir/Getty
Þrír voru færðir undir læknishendur eftir að hafa orðið „andsetnir“ er þeir léku sér í andaglasi ef marka má frétt Daily Mail um málið.

Andaglas er leikur sem lýsir sér í því að komið er fyrir spilaborði sem á er letrað stafrófið, tölur frá 0-9 og yfirleitt „já“ og „nei“.

Því næst leggja keppendur fingur á glas, spyrja hvort andi sé í glasinu og ef svo er reyna þeir því næst að fá svör við þeim spurningum sem þeir leggja fyrir hann.

Málsatvik voru þau að systkinin Alexandra og Sergio Huerta ákváðu að draga fram spilaborðið á heimili þeirra í suðvestur Mexíkó með þeim afleiðingum að innan örfárra mínútna var Alexandra farin að „urra“ og sveiflast um rétt eins og hún væri í leiðslu.

Sergio og frændi þeirra, Fernando, fóru einnig að sýna merki andsetningar um svipað leyti sem endurspeglaðist meðal annars í blindu, heyrnarleysi og ofsjónum.

Sjúkraliðar voru kallaðir að heimili þeirra og færði þau öll á nærliggjandi sjúkrahús.

Foreldrar Alexöndru sögðu að þeir hefðu hringt á sjúkrabíl sökum þess að kaþólski prestur þorpsins hafði neitað að særa út hina illu anda því þau væru ekki tíðir gestir í messum hans.

Sjúkraflutningamennirnir bundu Alexöndru niður svo hún færi sér ekki að voða og gáfu Alexöndru, Sergio og Fernando sterk verkja- og þunglyndislyf ásamt vænum skammti af augndropum til að vinna bug á ástandinu.

Í samtali við þarlenda miðla segir Victor Demesa, yfirmaður öryggismála í þorpi þremenninganna að aðgerðin hafi verið flókin. Hreyfingar þeirra hafa verið ýktar og óútreiknanlegar og því hafi reynst þrautin þyngri að flytja þau undir læknishendur.

Læknar hafa neitað að tjá sig um hvort tríóið hafi raunverulega verið andsetið eða einfaldlega sannfært sig um að svo væri.

Myndband af flutningum Alexöndru má sjá að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×