Erlent

Frásögn Alvarengas fær stuðning

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jose Salvador Alvarenga.
Jose Salvador Alvarenga. Vísir/AP
Jose Salvador Alvarenga, sem segist hafa hrakist um Kyrrahafið í þrettán mánuði, týndist á bát sínum í miklu hvassviðri þann 18. nóvember árið 2012.

Þetta fullyrða sjómenn í Costa Azul, litlu sjávarþorpi í Mexíkó, sem AP-fréttastofan hefur rætt við. Þeir hafa borið kennsl á Alvarenga af myndum sem birst hafa í fjölmiðlum. Samkvæmt frásögn þeirra stóðu hrakningar hans í Kyrrahafinu, frá Mexíkó til Marshall-eyja, yfir í fjórtán og hálfan mánuð.

Gerð var mikil leit að tveimur mönnum á bát sem týndist í óveðri þennan dag, en hætta þurfti leitinni eftir tvo daga. Björgunarmenn í Mexíkó hafa staðfest þetta við breska blaðið The Guardian

Samkvæmt skráningum í Mexíkó voru mennirnir reyndar báðir 38 ára og hétu Cirilo Vargas og Ezequiel Cordova. Þetta passar ekki við frásögn Alvarengas, sem sagði að fjórtán ára piltur að nafni Ezequil hafi verið með sér í bátnum. Samkvæmt The Guardian mun þó algengt að gerð séu mistök í opinberum skráningum í Mexíkó.

Heimamenn í Costa Azul þekktu Alvarenga undir nafninu La Chanca og sögðu hann þaulvanan sjómann. Hann hafi birst þar einn fyrir einhverjum árum að leita sér að vinnu.

Þá hafa blaðamenn í El Salvador, heimalandi Alvarengas, haft uppi á foreldrum hans, sem segja hann hætt að hafa samband fyrir um átta árum.

Stjórnvöld á Marshall-eyjum segja hann við þokkalega heilsu, og reyndar betri en búast hefði mátt við eftir að hafa hrakist um á hafinu í meira en ár. Hann verður líklega útskrifaður af sjúkrahúsi þar í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×