Erlent

Vígasveitir pynta börn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kúrdabærinn Kobani í Sýrlandi, rétt sunnan landamæra Tyrklands, hefur verið í hers höndum vikum saman. Fámennur hópur heimamanna hefur varist árásum vígasveitanna.
Kúrdabærinn Kobani í Sýrlandi, rétt sunnan landamæra Tyrklands, hefur verið í hers höndum vikum saman. Fámennur hópur heimamanna hefur varist árásum vígasveitanna. fréttablaðið/AP
Vígasveitir Íslamska ríkisins hafa pyntað og misþyrmt meira en 150 Kúrdabörnum sem handtekin voru fyrr á árinu skammt frá landamærabænum Kobani. Þau voru meðal annars barin með rafmagnssnúrum og vatnsslöngum.

Þetta fullyrða alþjóðlegu mannréttindasamtökin Human Rights Watch, sem hafa rætt við nokkur þeirra barna sem rænt var í vor þar sem þau voru á heimleið til Kobani eftir að hafa verið í skólaprófum í borginni Aleppo.

Samtökin segja um fimmtíu þeirra hafa sloppið fljótlega úr haldi vígamannanna, en hinum hafi verið sleppt smám saman. Þau síðustu fengu frelsið í lok október.

„Allt frá byrjun uppreisnarinnar í Sýrlandi hafa börn mátt þola þann hrylling sem fylgir handtöku og pyntingum, fyrst af hálfu stjórnar Assads og nú af hálfu Íslamska ríkisins,“ segir Fred Abrahams, talsmaður Human Rights Watch. „Þessar sannanir um pyntingar og misþyrmingar af hálfu Íslamska ríkisins sýna okkur hvers vegna enginn ætti að styðja glæpaverk þeirra.“

Börn í flóttamannabúðum Kúrda í Tyrklandi, rétt handan landamæranna við Kobani.fréttablaðið/AP
Undanfarið ár hafa vígamennirnir handtekið hundruð Kúrda í Sýrlandi og jafnframt lagt kapp á að ná á sitt vald Kúrdasvæðunum í norðaustanverðum hluta Sýrlands. Á þriðjudaginn var svo skýrt frá því að tugir þessara Kúrda hafi verið látnir lausir, en engin skýring fylgdi hvort það hafi verið liður í einhverju samkomulagi við Kúrda.

Hörð átök geisa enn í Kobani, þar sem vígasveitir íslamista hafa mætt harðri mótspyrnu frá íbúum bæjarins þótt flestir hafi þeir reyndar flúið átökin. Þeir sem eftir eru tilheyra flestir þjóðvarnarsveitum sýrlenskra Kúrda, sem ganga undir skammstöfuninni YPG og hafa jafnan snúist til varnar þegar átökin í landinu hafa borist inn á Kúrdasvæðin.

Íbúarnir hafa nýlega fengið liðsinni frá Peshmarga-hersveitum íraskra Kúrda, sem tyrknesk stjórnvöld hafa leyft að fara yfir landamærin til Sýrlands.

Málið er umdeilt í Tyrklandi og hefur yfirstjórn hersins harðlega mótmælt þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leyfa vopnuðum Kúrdum að fara um tyrkneskt svæði á leið sinni frá Írak til Sýrlands. Tyrkneski herinn hefur áratugum saman varið kröftum sínum að stórum hluta í baráttu gegn sjálfstæðissinnuðum Kúrdum í suðaustanverðu Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×