Erlent

Vélmenni sem líkjast börnum gætu verið notuð til að fræðast um barnaníðinga

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ron Arkin er prófessor við Georgia Tech.
Ron Arkin er prófessor við Georgia Tech.
Á ráðstefnu um siðferðismál sem tengjast vélmennum ræddu sérfræðingar um möguleikann á að búa til sérstök vélmenni sem líktust börnum sem nota mætti í rannsóknarskyni.

„Vélmenni sem líkjast börnum mætti nota í rannsóknarskyni. Það væri hægt að nota þau eins og methadone er notað til að trappa fíkla niður,“ segir Ron Arkin, prófessor við Georgia Tech háskólann í Bandaríkjunum í samtali við blaðamann Forbes. Arkin tekur það skýrt fram að hann sé eingöngu hlyntur notkun slíkra vélmenna í þeim tilgangi að rannsaka betur hegðun barnaníðinga og vill nýta tæknina til að gera samfélagið öruggara.

Spurningar um siðferði vakna þegar hugmynd Arkin er skoðuð nánars. Ryan Calo, prófessor í lögfræði við Háskólann í Washington, telur að slík vélmenni gætu verið lögleg í Bandaríkjunum. Hann benti á úrskurði Hæstarétts í Bandaríkjunum. Árið 2002 féll úrskurður í máli sem tengdist tölvugerðu barnaklámi (e. Virtual child porn), þar sem myndum af konum var breytt í tölvu til þess að láta þær líta út fyrir að vera af stúlkum. Hæstiréttur taldi að ekki væri hægt að dæma menn sem áttu slíkar myndir fyrir vörslu barnakláms. Calo telur því að það gæti talist löglegt að eiga vélmenni sem liti út eins og barn með það fyrir augum að nota í kynferðislegum athöfnum, eins og lögin eru nú.

Í Kanada gilda strangari lög um mál af þessu tagi. Í fyrra var 48 ára gamall maður handtekinn fyrir að panta sér kynlífsdúkku á netinu sem leit út eins og barn. Hann var handtekinn og ákærður fyrir vörslu barnakláms. Maðurinn fer fyrir rétt í næsta mánuði.

Vefsíðan International Business Times fjallar einnig um málið. Þar kemur fram að kynlífsdúkkur eru löglegar í Bretlandi, ef sá sem kaupir er eldri en 18 ára gamall. Engin lög eru í landinu sem ná yfir kynlífsdúkkur sem líta út eins og börn. Í umfjölluninni er vitnað í Ben Way, sem hefur skrifað bók um vélmenni og framtíðarhlutverk þeirra í mannlegu samfélagi. Hann er viss um að vélmenni, eins og Arkin fjallar um, verði til í framtíðinni.

„Það er enginn vafi á því að kynlífsvélmenni verða til í framtíðinni. Ég held að það sé ógjörningur að stýra því hvaða vélmenni teljast til fullorðinna og hvaða vélmenni teljast til barna. Munu einhverjir fá útrás fyrir ógeðslegum kynferðislegum löngunum sínum? Alveg pottþétt. En ég held að við það muni þeim sem misnota börn fækka,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×