„Drengnum líður ágætlega núna og er það fyrir öllu,“ sagði Jónas Gestur Jónasson, formaður knattspyrnudeildar Víkings frá Ólafsvík, um atvik sem átti sér stað á Hellissandi í gær.
Þá mættust lið Snæfellsnes og Sindra frá Hornafirði í 2. flokki karla en leikmaður síðarnefnda liðsins veitti umræddum knattspyrnumanni alvarlega höfuðáverka í leiknum.
Jónas Gestur segir að leikmaðurinn hafi misst meðvitund og því hafi verið ákveðið að kalla til þyrlu landhelgisgæslunnar sem flutti hann á sjúkrahús.
„Mér er sagt að þetta hafi verið óhugnalegt um tíma en ég var ekki sjálfur á leiknum,“ sagði Jónas Gestur. „Fólki hér í bæ var verulega brugðið og hefur rætt um fátt annað.“
Málið er komið í farveg, bæði hjá KSÍ og lögreglu en skýrsla var tekin af leikmönnum og öðrum sem voru viðstaddir leikinn í gær. Jónas segir að enn hafi engin ákvörðun verið tekin um framhaldið og hvort kæra verði lögð fram.
