Enski boltinn

Balotelli má ekki við því að mistakast

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Balotelli þarf að þroskast
Balotelli þarf að þroskast vísir/getty
Mino Raiola umboðsmaður Mario Balotelli sem er við það að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarliðið Liverpool segir að ítalski framherjanum megi ekki mistakast í Bítlaborginni.

Kaupverðið á Balotelli er 16 milljónir punda en beðið er útkomu læknisskoðunar áður en gengið verður endanlega frá kaupunum frá AC Milan á ítalíu.

Balotelli er búinn að kveðja félaga sína hjá ítalska liðinu en hann hefur oft vakið athygli á sér með óhefðbundnu athæfi, bæði innan sem utan vallar. Umboðsmaðurinn segir að nú sé kominn tími til að Balotelli þroskist.

„Hann er ekki tilbúinn að vera leiðtogi. Liverpool er með (Steven) Gerrard. Mario verður verndaður þar og mun leik sinn besta fótbolta,“ sagði Raiola við ítalska fjölmiðla.

„Þetta er undir honum komið. Önnur mistök eru ekki í boði. Hann getur ekki falið sig bak við aldurinn,“ sagði umboðsmaðurinn sem var alltaf á móti því að Balotelli færi heim til Ítalíu.

„Viðræðurnar hafa staðið í þrjá mánuði. Þetta er ekki ný frétt. Liverpool er eina enska liðið sem hefur rætt við Mario.

„Nú er rétti tíminn til að fara frá Milan. Það voru engin vandræði þar, eitthvað atvik eða nein breyting. Honum og Milan lenti ekkert saman. Ég var alltaf á móti því að Mario færi til Ítalíu. Pressan þar, væntingarnar og fjölmiðlar. Það er mikið erfiðara fyrir hann að leika á Ítalíu en erlendis.

„Hann var harður á því að fara frá Manchester City til Milan og í viðskiptum leikmanns og umboðsmanns er það alltaf leikmaðurinn sem ræður,“ sagði Raiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×