Erlent

Ebólusmitaður læknir fluttur til Bandaríkjanna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Maðurinn smitaðist í Sierra Leone.
Maðurinn smitaðist í Sierra Leone. Vísir / AP
Skurðlæknir frá Sierra Leone hefur verið fluttur til Nebraska í Bandaríkjunum þar sem hann fær meðferð við veirunni. Hann er þegar orðinn veikari en aðrir einstaklingar sem greinst hafa með ebólu í Bandaríkjunum. Hann er þriðji ebólusjúklingurinn sem sjúkrahúsið sem annast hann nú hefur sinnt. 

Læknirinn, sem heitir Martin Salia, er búsettur í Bandaríkjunum en hann hefur undanfarið starfað í heimalandi sínu við að hefta útbreiðslu veirunnar. Salia var fluttur með flugi til Bandaríkjanna fyrr í dag en hann var of veikur til að geta gengið sjálfur út úr flugvélinni, samkvæmt fréttastofu Reuters.

Í yfirlýsingu sem spítalinn sem annast manninn hefur sent frá sér segir að enn sé verið að afla upplýsinga um nákvæmt ástand hans. Fyrstu vísbendingar, sem meðal annars byggja á gögnum frá teyminu sem annaðist hann í Sierra Leone, benda til þess að hann sé alvarlega veikur.

Salia var fluttur til Bandaríkjanna að ósk eiginkonu hans, sem er bandarískur ríkisborgari. Samkvæmt yfirlýsingu bandarískra yfirvalda hefur konan samþykkt að greiða allan kostnað sem hlýst af flutningi og umönnun hans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.