Fótbolti

Freyr: Lars og Heimir eru ofboðslega vel skipulagðir

Björn Sigurðsson og Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifa

Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands, stökk á tækifærið þegar honum bauðst að fara með karlalandsliðinu til Belgíu og Tékklands. Hann var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 og segist hafa nýtt ferðina vel.

„Þetta er kjörinn tímapunktur á árinu fyrir mig að fylgja Lars, Heimi og starfsliðinu í kringum landsliðið og sjá hvað ég get nýtt mér fyrir kvennalandsliðið,“ segir Freyr sem einnig er þjálfari karlaliðs Leiknis. Hann kom liðinu upp í Pepsi-deild karla í haust, í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Hann segir nauðsynlegt fyrir jafn lítið knattspyrnusamband og það íslenska að nýta öll þau úrræði sem því standa til boða.

„Samskiptin á milli þeirra sem starfa fyrir landsliðin eru mjög góð og þeir Lars og Heimir eru alltaf reiðubúnir að aðstoða mig og skoða það sem er í gangi kvennamegin. Það er mikilvægt fyrir jafn lítið knattspyrnusamband og KSÍ að samskiptin og flæðið á milli starfsmanna sé gott.“

Freyr lofar starfið sem er unnið með karlalandsliðið og segir það greinilegt að árangur liðsins að undanförnu sé engin tilviljun.

„Það er heilmikið starf unnið á bak við tjöldin og hef ég tekið mest inn af því. Lars og Heimir eru ofboðslega vel skipulagðir og undirbúningsvinnan, sem er svo mikilvæg, er mjög faglega unnin og algjörlega til fyrirmyndar. Sjúkrateymið er líka að vinna ótrúlegt starf. Þetta er því allt mjög faglegt og vel gert.“

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Hannes: Ég sakna Gulla smá

Landsliðsmarkvörðurinn verður væntanlega á sínum stað í marki Íslands gegn Tékklandi í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.