Erlent

Flytja MH17 af slysstað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Unnið að því að koma brakinu á brott
Unnið að því að koma brakinu á brott NordicPhotos/afp
Vinna er hafin við að fjarlægja brak flugvélar Malaysian Airlines af slysstað í Úkraínu.

Flug félagsins MH17, á leið til Amsterdam frá Kuala Lumpur, var skotin niður í júlí síðastliðnum. Allir farþegarnir 298 létu lífið. Vinna við að fjarlægja vélina dróst á langinn sökum átakana í Úkraínu milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna í austurhluta landsins.

Áætlað er að það muni taka um viku að safna öllu braki vélarinnar saman en það mun verða flutt til Hollands til rannsókna. Talið er að flakið geti varpað ljósi á hver ber ábyrgð á því að hafa skotið vélina niður.

Slysið hefur verið bitbein Úkraínumanna og Rússa en þjóðirnar hafa bent á hvor aðra. Nú fyrir skemmstu birti rússnesk sjónvarpsstöð myndir sem áttu að sýna fram á að úkraínsk þota hefði skotið vélina niður. Myndin á að hafa verið tekin úr gervihnetti og barst rússneskum ráðamönnum í tölvupósti frá nema við MIT. Líklegt þykir að myndin sé fölsuð.

Á meðan er ástandið í Úkraínu enn eldfimt en stór hluti ráðstefnu G20 ríkjanna hefur snúist um stöðuna þar og beinast mörg spjót að Vladimir Putin Rússlandsforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×