Fótbolti

Lagerbäck: Ég á stóran þátt í tapinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Plzen skrifar
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara Íslands, segir að hann eigi stóran þátt í því að Ísland tapaði fyrir Tékklandi, 2-1, í undankeppni EM 2016 í kvöld.

„Það er alltaf aðeins betra ef maður tapar fyrir betra liði þó svo að vonbrigðin séu gríðarlega mikið,“ sagði Lagerbäck en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Það var erfitt að sætta sig við mörkin. Samkvæmt okkar klukku á bekknum átti að flauta fyrri hálfleikinn af 45 sekúndum áður en þeir fengu aukaspyrnuna. Ég skil því ekki af hverju það fékk að standa. Þess fyrir utan er það ekki gott að tapa á sjálfsmarki.“

Hann segir að Ísland hafi ekki spilað vel í fyrri hálfleik og tók hann hluta sakarinnar á sig. „Við hefðum átt að spila betur miðað við hvernig þeir voru að spila með sitt þríhyrningsspil úti á köntunum. Við vorum því að láta taka okkur úr stöðu og aðeins of passívir.“

„Það er mitt starf að koma í veg fyrir það og því á ég stóran þátt í þessu tapi.“

Hann segir að þeir hafi rætt um að gera þær skiptingar sem þeir gerðu snemma í síðari hálfleik strax að loknum þeim fyrri. „En mér fannst það mikilvægara að fá leikmenn til að skilja hvað við hefðum gert rangt í fyrri hálfleik og koma þeim þá aftur í rétta stöðu.“

„Ég held að þetta hafi verið rétt því á endanum voru þetta ekki vegna einstaklingsmistaka heldur vann liðið ekki nógu vel saman.“

Hann segir líklegt að þegar fram líða stundir verði hann ef til vill sáttur með níu stig að loknum fjórum leikjum. „Ég er auðvitað ekki sáttur í dag en við erum þó enn með í toppbaráttunni. Þetta er þó virkilega erfiður riðill - sá næst sterkasti í keppninni að mínu mati - og við þurfum að berjast við þrjú virkilega sterk lið um toppsætin.“


Tengdar fréttir

Þjóðin svekkt en stolt af strákunum

Sparkspekingar eru sársvekktir með 2-1 tap karlalandsliðs Íslands í Tékklandi í kvöld. EM-draumurinn lifir þó enn góðu lífi.

Jón Daði: Kem eflaust út eins og skúrkurinn

Jón Daði Böðvarsson var skiljanlega vonsvikinn eftir 1-2 tap gegn Tékklandi í dag en hann skoraði óheppilegt sjálfsmark í leiknum sem reyndist vera sigurmark leiksins.

Umfjöllun: Strákarnir felldir í Tékklandi

Íslenska liðinu var kippt niður á jörðina á ný eftir drauma byrjun í undankeppni Evrópumótsins í 1-2 tapi gegn Tékklandi í Plzen í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×