Erlent

Fordæma valdtöku hersins í Búrkína Fasó

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Herinn í Búrkína Fasó verður að skila völdum til borgara landsins eða sæta refsingu. Þetta segja Sameinuðu Þjóðirnar og Afríkubandalagið. Þúsundir mótmælenda hafa nú komið saman í Ouagadougou höfuðborg ríkisins þar sem þau mótmæla valdtöku hersins.

Fyrrverandi forseti Búrkína Fasó, Blaise Compaore, sagði af sér nýverið eftir að mótmælendur kveiktu í þinghúsi landsins. Þá höfðu mótmæli staðið yfir um nokkurra daga skeið vegna áætlana forsetans um að breyta stjórnarskrá landsins svo hann gæti setið verið forseti fimmta kjörtímabilið.

Compaore flúði til Fílabeinsstrandarinnar ásamt fjölskyldu sinni samkvæmt BBC.

Herinn tók þá völdin, en í dag hefur skothríð heyrst við höfuðstöðvar ríkissjónvarpsins í höfuðborginni. Óstaðfestar fregnir herma að hermenn hafi skotið í loftið til að koma í veg fyrir að mótmælendur æddu inn í bygginguna.

Afríkubandalagið, Sameinuðu þjóðirnar og Bandaríkin hafa nú gefið út að herinn verði að koma völdum í hendur borgara ríkisins. Annars gæti viðskiptaþvingunum verið beitt gegn landinu. Íbúar Búrkína Fasó glíma þó við gífurlega fátækt.

Samkvæmt stjórnarskrá ríkisins átti forseti öldungaþings Búrkína Fasó að taka við völdum og halda ætti kosningar eftir 60 til 90 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×