Erlent

Fylgst með 800 flugfarþegum vegna ebólu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frontier hefur haft samband við farþegana en sóttvarnareftirlitið í Bandaríkjunum fylgist með þeim.
Frontier hefur haft samband við farþegana en sóttvarnareftirlitið í Bandaríkjunum fylgist með þeim. Vísir / planephotoman
Bandaríska flugfélagið Frontier hefur haft samband við hátt í 800 farþega sem flugu með félaginu nýverið. Tilefnið er ebólusmit hjúkrunarfræðings sem flaug með félaginu eftir að hún sinnti ebólusmituðum manni sem lést í Texas nýverið.

Talið er að hjúkrunarfræðingurinn hafi verið farin að sýna einkenni þegar hún flaug með félaginu í tvígang. Farþegarnir sem haft hefur verið samband við eru þeir sem flugu í sömu ferðum og hjúkrunarfræðingurinn auk þeirra farþega sem flogið hafa með sömu flugvélum síðan.

Sóttvarnareftirlit bandaríkjanna, CDC, hefur lýst því yfir að verulega litlar líkur séu á að nokkur þeirra farþega sem um ræðir hafi smitast. Komast þarf í beina snertingu við líkamsvessa smitaðs einstaklings en ebóla berst ekki með andrúmsloftinu. Þá smitar veikur einstaklingur ekki fyrr en hann sýnir einkenni veirunnar. Engu að síður hefur stofnunin haft samband við þessa farþega.

Hjúkrunarfræðingurinn er önnur af tveimur sem veiktust af ebólu í kjölfar þess að hafa sinnt Líberíumanninum Thomas Eric Duncan sem lést úr veikinni á sjúkrahúsi í Texas í byrjun mánaðar. Hún var sjálf lögð inn á spítala á þriðjudag eftir að hafa flogið til Ohio og til baka þar sem hún heimsótti fjölskyldu sína.

Grannt er fylgst með öllum þeim sem sinntu Duncan með einum eða öðrum hætti á spítalanum. Einnig er fylgst með öllum þeim sem vitað er til að hjúkrunarfræðingurinn átti í samskiptum við á meðan hún var í Ohio. Þar á meðal starfsmönnum í brúðarkjólaverslun sem hún heimsótti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×