Erlent

Tónleikahaldari talinn hafa svipt sig lífi eftir mannskætt slys

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frá vettvangi slyssins.
Frá vettvangi slyssins. Vísir / AFP
Einn af skipuleggjendum tónleika í Suður-Kóreu þar sem sextán létust og ellefu slösuðust þegar loftræstirist hrundi er látinn. Lík mannsins fannst í morgun. Suður-kóreska lögreglan telur að maðurinn hafi tekið eigið líf.

Maðurinn sem um ræðir sá um öryggismál fyrir hönd eins af styrktaraðilum tónleikanna, að því er segir á vef BBC. Þar segir að talið sé að hann hafi stokkið fram af tíu hæða húsi nærri tónleikastaðnum í kjölfar yfirheyrslna hjá lögreglunni.

BBC hefur eftir embættismönnum að maðurinn hafi skilið eftir bréf til eiginkonu sinnar. Í því hafi hann sagt að hann væri miður sín vegna slyssins og beðið hana um að hugsa vel um börnin sín.

Lögreglan hefur yfirheyrt fimmtán aðra í tengslum við slysið sem átti sér stað á tónleikum með vinsælli stúlknahljómsveit. Fórnarlömbin féllu um tuttugu metra niður í bílastæðakjallara en um 700 manns voru saman komnir á tónleikunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×