Erlent

Morgunmatur sem er 8000 hitaeiningar

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þetta er hinn þokkalegasti skammtur.
Þetta er hinn þokkalegasti skammtur.
Góður morgunmatur getur lagt grunn að góðum degi. Þetta hefur eigandi veitingastaðar í Englandi tekið bókstaflega. Hann býður nú viðskiptavinum sínum upp á morgunmat sem er hvorki meira né minna en átta þúsund hitaeigningar. Veitingastaðurinn kallast Bear Grills Cafe.

Þetta er hluti af réttinum. Takið eftir: Hluti, ekki allur rétturinn.
Rétturinn er kallaður The Hibernator, og vísar nafnið til þess að eftir að hafa borðað hann geta viðskiptavinirnir lagst í vetrardvala. „Við köllum hann þetta, því þeir sem klára hann geta lagst í dvala í heilt ár,“ segir eigandinn Mark Winder. Hann segir að rétturinn sé um þrjú og hálft kíló að þyngd. „Vegur það sama og ungabarn,“ bætir hann við. Winder biður alla sem leggja sér réttinn til munns að skrifa undir plagg, þar sem fólk vottar að það sé að borða matinn á eigin ábyrgð. „En enginn hefur látist við að borða réttinn," segir hann.

Svona er rétturinn uppbyggður:

Átta sneiðar af beikoni.

Átta pylsur.

Fjórir kartöfluklattar.

Fjórar vöfflur.

Fjórar ristaðar brauðsneiðar.

Fjórar sneiðar af grilluðu brauði.

Eggjahræra með fjórum eggjum.

Baunir, tómatar og sveppir.

Stór skammtur af frönskum.

Stór mjólkurhristingur.

Rétturinn kostar rétt tæp tuttugu pund, sem er um 3900 íslenskar krónur. Þeir sem klára réttinn fá bol að gjöf. Upphaflega þurfti að klára réttinn á innan við hálftíma, en eftir að engum tókst að klára hann ákvað Winder að taka tímamörkin af. Á vefsíðunni EatingChallenges.com kemur fram að þetta er stærsta áskorun á Bretlandseyjum þegar það kemur að morgunmat. Enginn staður býður upp á jafn hitaeiningaríkan morgunverð. Eðlileg hitaeiningaþörf karlmanna er um 2500 og 2000 hitaeingar fyrir konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×