Innlent

Fjörutíu kindur strandaglópar í miklum vatnavöxtum

mynd/austurfrétt/kjartan ottó hjartarson
Fjárhópur er nú í sjálfheldu úti í Grímsá í Skriðdal sem vaxið hefur gríðalega í mikilli rigningu undanfarinn sólarhring. Um er að ræða fjörutíu gemlinga og þrjár fullorðnar kindur. Austurfrétt greinir frá.

Eigandi kindanna segir ekkert ama að þeim og bíður þess að vatni minnki. Minni rigning er framundan og bíður hann því átekta.

„Gemlingarnir eru styggir og gætu farið vitlausu megin út í ána ef maður reyndi að komast að þeim á bát eða öðru,“ segir segir Kjartan Ottó Hjartarson bóndi á Arnhólsstöðum í Skriðdal og eigandi kindanna í samtali við Austurfrétt

„Það eru grastoppar þarna svo þær svelta ekki. Eyrin er það stór ennþá,“ segir Kjartan.

Kindurnar voru á túninu fyrir neðan Arnhólsstaði en hafa leitað yfir á eyrarnar neðan við bæinn Hryggstegg, að sögn Kjartans. Þar hafi þær verið þegar fór að rigna.

Úrkoma síðasta sólarhrings hefur víða mælst um tuttugu millimetrar og við það hefur hækkað mikið í ám og vötnum. 

Kjartan segir að í Skriðdal hafi rignt „rosalega í nótt" og dalurinn líti nánast út eins og fjörður. Hann tekur dæmi af vörubíl í nágrenninu sem hafi verið á þurru áður en byrjaði að rigna en Grímsáin nái honum nú upp undir pall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×