Innlent

Gekk á Hvannadalshnjúk á gervifæti

Hjörtur Hjartarson skrifar
Fyrstu tólf tímarnir voru frekar léttir en síðustu tveir býsna erfiðir," segir Ragnar Hjörleifsson, sem gekk á Hvannadalshnjúk í vor. Það merkilega við fjallgöngu Ragnars er að hann missti annan fótinn í vinnuslysi fyrir tæpum fjörtíu árum og gengur nú á gervifæti.

Ragnar býr í Mosfellsbæ og telur það ekki eftir sér að hjóla til fundar við fréttamann með hundinn Leó með sér. Ragnar missti hægri fótinn í vinnuslysi árið 1977, þegar hann var 17 ára, lenti í drifskafti eins og hann orðar það. Það hefur þó ekki hægt á honum nema síður sé.

Ragnar hefur verið duglegur að ganga á fjöll og núna í vor komst hann á hæsta tind Íslands, sjálfan Hvannadalshnjúk.

„Ég fór 16. maí á þessu ári,“ segir Ragnar.

Og var það ekkert mál?

„Jújú, þetta er auðvitað smá mál. Við vorum fjórtán og hálfan tíma á leiðinni. Þetta var erfitt. Fyrstu tólf tímarnir voru léttir en tveir síðustu býsna erfiðir.“

Ragnar segist ekki hafa hugmynd um það hvort hann sé sá fyrsti eða eini sem gengið hefur Hvannadalshnjúk á gervifæti. Afrekið sé kannski meira í hugum annarra en hans eigin enda fátt, ef nokkuð, sem hann ekki getur.

„Það reyndi í mínu tilfelli meira á þolið mitt heldur en endilega á gervifótinn.“

Ragnar stefnir ekki á stærri fjallgöngusigra í framtíðinni, Esjan henti honum ágætlega í bili.

„Jájá, ég fer hérna reglulega með hundinn. Esjan hentar mér ágætlega, hún er passlega löng og passlega brött,“ segir Ragnar og rýkur af stað. Metið hans upp að Steini er 47 mínútur, kannski féll það met í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×