Enski boltinn

Samherji Gylfa Þórs opinn fyrir því að framlengja við Swansea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wilfried Bony hefur aðeins skorað eitt mark það sem af er.
Wilfried Bony hefur aðeins skorað eitt mark það sem af er. vísir/getty
Wilfried Bony, samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea, segist opinn fyrir því að framlengja samninginn sinn við félagið, en margir héldu hann á útleið í sumar.

Tottenham var sagt hafa áhuga á leikmanninum og þá á Swansea að hafa hafnað 12,5 milljóna punda tilboði í Fílabeinsstrendinginn frá Liverpool.

Bony, sem skoraði 25 mörk á sínu fyrsta tímabili með velska liðinu en hefur aðeins fundið netmöskvana einu sinni á þessari leiktíð, segist aldrei hafa verið á útleið.

„Ef ég hefði viljað fara, þá hefði ég farið. Þetta voru ekkert nema orðrómar um brottför mína til Monaco, Liverpool eða Tottenham,“ segir Bony við afríska blaðið Jeune Afrique.

„Mér líður vel hjá Swansea. Það er meira að segja mögulegt að ég framlengi samninginn minn. Ég hef vissulega ekki verið jafngóður núna og á síðustu leiktíð, en ég hef engar áhyggjur. Ég er í góðu liði og því er minni pressa á sóknarmönnunum,“ segir Wilfried Bony.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×