Innlent

Reynt að lokka dreng upp í bíl við Langholtsskóla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Níu ára drengur var í gærkvöldi stöðvaður á bílaplani við Langholtsskóla af manni sem bauð honum sælgæti. Drengurinn brást hárrétt við þegar maðurinn bauð honum karamellur; afþakkaði og labbaði burt. Móðir drengsins hafði samstundis samband við lögreglu og skólayfirvöld og er málið nú í skoðun. Drengurinn gat þó ekki lýst manninum né bílnum.

„Maður er auðvitað bara í sjokki og það var ekkert auðvelt að sofna í nótt,“ segir móðir drengsins.

Hún brýnir fyrir fólki að hafa augun opin og vera vel á varðbergi og segir að nauðsynlegt sé að kenna börnum hvernig þau eigi að bregðast við í slíkum aðstæðum.

„Þetta er umræða sem maður þarf að eiga við börnin sín og þarf alltaf að ítreka hvað skal gera ef svona kemur fyrir. Þarna brást hann algjörlega rétt við,“ segir hún.

Lögregla segir að mikilvægt sé að börn tilkynni svona atvik og leggi á minnið því sem þau verði áskynja. Því sé mikilvægt að foreldrar skrái niður það sem þau hafi að segja. Sem fyrr segir er málið komið á borð lögreglu, en hafi fólk upplýsingar um atvikið er því bent á að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Reynt að tæla börn upp í bíla í Vesturbænum

Í bréfi sem sent hefur verið foreldrum í Vesturbæjarskóla kemur fram að foreldrar hafi sett sig í samband við skólann og lýst áhyggjum af því að ókunnugir menn hafi ávarpað börn þeirra og boðið þeim bílfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×