Enski boltinn

Gylfi tilnefndur sem leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, er einn af fimm leikmönnum sem tilnefndir voru sem leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni en valið verður kunngert á morgun.

Ásamt Gylfa er liðsfélagi hans hjá Swansea, Nathan Dyer tilnefndur, Andreas Weimann hjá Aston Villa og Chelsea leikmennirnir Cesc Fabregas og Diego Costa.

Gylfi sem sneri aftur til Swansea í sumar lék frábærlega í þremur leikjum Swansea á tímabilinu en liðið er með fullt hús stiga og kom hann að öllum mörkum liðsins, meðal annars sigurmarki á Old Trafford í fyrstu umferðinni. Þá átti hann stóran þátt í öllum mörkum liðsins í sigrum á Burnley og WBA.

Gylfi var í mars árið 2012 valinn fyrstur Íslendinga leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni og gæti hann endurtekið leikinn þegar verðlaununum verður úthlutað á morgun.

Knattspyrnustjóri Gylfa, Gary Monk var einnig tilnefndur sem stjóri mánaðarins en ásamt honum voru þeir Jose Mourinho hjá Chelsea, Paul Lambert hjá Aston Villa og Mark Hughes hjá Stoke tilnefndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×