Enski boltinn

Eigandinn hótar að selja fái hann ekki að breyta nafninu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Assem Allam á fyrsta leik Hull í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Assem Allam á fyrsta leik Hull í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Vísir/Getty
Assem Allam, eigandi Hull City AFC, opinberaði í dag að félagið væri til sölu eftir að enska knattspyrnusambandið hafnaði beiðni hans að breyta nafninu á liðinu í Hull City Tigers.

Allam sem kemur upphaflega frá Egyptalandi fluttist til Hull fyrir 46 árum síðan og keypti félagið árið 2010 eftir að hafa auðgast á skömmum tíma.

Allam hefur ekki farið leynt með ósk sína að nafninu á liðinu yrði breytt í Hull City Tigers þrátt fyrir að stuðningsmenn liðsins hafi mótmælt því harkalega.

Nú hefur hinsvegar enska knattspyrnusambandið hafnað Allam og mun liðið því heita áfram Hull City AFC.

„Við áfrýjuðum þessum úrskurði. Ef við munum ekki fá þetta í gegn mun ég selja félagið en ég mun gæta bestu hagsmuna þess þangað til að niðurstaða kemur í þetta mál,“ sagði Allam.

Hull náði að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð ásamt því að komast í úrslit enska bikarsins en liðið er með fjögur stig eftir þrjá leiki á núverandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×