Erlent

Rússar vara Bandaríkin við að ráðast á Sýrland

Atli Ísleifsson skrifar
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst á vordögum 2011.
Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hófst á vordögum 2011. Vísir/AFP
Rússnesk stjórnvöld hafa varað Bandaríkjamenn við að loftárásir gegn uppreisnarsveitum í Sýrlandi væru alvarlegt brot á alþjóðalögum.

Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins sagði að ef samþykki Sameinuðu þjóðanna lægi ekki fyrir yrðu loftárásir álitnar sem árás á Sýrland.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú í Sádi-Arabíu þar sem hann hittir leiðtoga fjölda arabaríkja í tilraun til að koma á bandalagi til að berjast gegn vígasveitum IS sem hafa náð stórum landsvæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald síðustu mánuði.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hafði áður hótað því að gripið yrði til aðgerða gegn IS í Sýrlandi, líkt og gerst hefur í Írak. Obama sagði í ræðu að allir þeir hópar sem ættu í hótunum við Bandaríkjunum myndu ekki eiga nokkurt skjól. Myndu Bandaríkjamenn draga úr samtökunum og að lokum eyða þeim.

Yfirlýsingar Obama hafa hins vegar leitt til harðra viðbragða frá rússneskum stjórnvöldum sem eru nánir bandamenn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

Sýrlandsstjórn hefur sömuleiðis ítrekað afstöðu sína að Bandaríkjamenn yrðu að eiga í samráði við sig, áður en ráðist yrði í loftárásir á sýrlensk landsvæði. „Sérhver aðgerð án samþykkis Sýrlandsstjórnar yrði álitin vera árás á Sýrland,“ sagði talsmaður Sýrlandsstjórnar.

Bandaríkjaher hefur framkvæmt um 150 loftárásir gegn sveitum IS í Írak síðustu vikur og útvegað írökskum og kúrdískum hersveitum vopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×