Erlent

Búið að loka skoskum kjörstöðum: Algjör óvissa um úrslit

Heimir Már Pétursson skrifar
Engin leið er að spá fyrir um úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sjálfstæði  Skotlands sem fram fer í dag. Nánast hver einasti kosningabær maður í landinu lét skrá sig til atkvæðagreiðslunnar eða 97 prósent kjósenda frá 16 ára aldri og áhuginn er svo mikill að 800 þúsund af fjórum milljónum kjósenda kaus utan kjörfundar. Kosið var á 5579 kjörstöðum víðsvegar um hinar þrjátíu og tvær sýslur sem til teljast til Skotlands. Áætlað er að kjörsóknin verði í kringum 90 prósent.

Kjörstaðir lokuðu klukkan 21 að íslenskum tíma.

Fjölmiðlar alls staðar að úr heiminum fylgjast grannt með þjóðaratkvæðagreiðslunni hér í Skotlandi og íbúar Quebec í Kanada og Katalóníu á Spáni, þar sem líka er barist fyrir aðskilnaði, flykjast hingað til að fylgjast með.

Enginn fjölmiðill í Bretlandi treystir sér til að segja til um úrslitin þar sem mjög lítill munur er á fylgi sambandssinna og sjálfstæðissinna og hefur hann farið hratt minnkandi. En samkvæmt nýjustu könnunum er einungis tveggja prósentustiga munur á fylginu; 49 % ætla að segja já en 51% nei við spurningunni hvort Skotland eigi að verða sjáfstætt ríki.

Heimir Már Pétursson fréttamaður Stöðvar 2 og Björn Sigurðsson myndatökumaður eru í Edinborg og sendu þessa frétt frá sér í kvöld sem sjá má í spilaranum hér að ofan.

Eftir að atkvæði hafa verið talin í hverri sýslu fyrir sig mun formaður kjörstjórnar, Mary Pitcaithly, taka við tölunum og það er hún sem mun á endanum tilkynna landsmönnum um úrslit kosninganna. Talið er að það verði einhvern tímann á bilinu frá klukkan hálfsjö til hálfátta í fyrramálið. 

Búast má við fyrstu tölum upp úr miðnætti. Töl­ur úr stærstu bæj­ar­fé­lög­un­um, Glasgow, Ed­in­borg og Aber­deen koma lík­lega ekki fyrr en und­ir morg­un




Fleiri fréttir

Sjá meira


×